HM eldri leikmanna í krullu: Tap fyrir Englendingum eftir baráttuleik

Íslendingar stóðu vel í Englendingum í leik liðanna á HM eldri leikmanna í dag og höfðu forystuna þegar tvær umferðir voru eftir. Englendingar sterkari í lokin og sigruðu 8-5.

 

Íslendingar hófu leikinn gegn Englendingum en ekkert var skorað í fyrstu umferðinni. Væntanlega var það með ráðum gert hjá Englendingum sem höfðu síðasta stein í fyrstu umferðinni, að í stað þess að skora eitt stig að skora frekar ekkert í þeirri umferð, hafa seinasta stein aftur í næstu umferð og reyna að skora tvö stig – og sú áætlun gekk upp því Englendingar komust í 2-0 í annarri umferð.

Liðin höfðu fyrir leikinn bæði unnið einn leik og tapað tveimur en Englendingar unnu sinn fyrsta sigur á mótinu þegar þeir léku gegn Ný-Sjálendingum fyrr í dag. Íslendingar svöruðu strax fyrir sig í næstu umferð með tveimur steinum en Englendingar skoruðu þá aftur tvo steina í fjórðu umferðinni. Okkar menn hófu seinni hluta leiksins með því að skora eitt stig í fimmtu umferðinni og staðan þá orðin 4-3 Englendingum í vil þegar þrjár umferðir voru eftir. Íslendingar tóku síðan forystuna með því að stela tveimur stigum í sjöttu umferðinni, komust í 5-4. Englendingum leist greinilega ekki á að tapa fyrir Íslendingum og skoruðu fjögur stig í næstsíðustu umferðinni, náðu þar með þriggja stiga forystu sem erfitt er að vinna upp þegar aðeins ein umferð er eftir, lokatölurnar því 5-8 Englendingum í vil.

Ísland  0 0 2 0 1 2 0 X 5
England  0 2 0 2 0 0 4 X 8

Næsti leikur okkar manna verður gegn Bandaríkjamönnum og hefst hann kl. 12:40 að íslenskum tíma á morgun, þriðjudaginn 11. mars.

Mögulegt er að fylgjast með framgangi leikja umferð fyrir umferð á meðan þeir standa yfir á úrslitavef finnska krullusambandsins.