Íslandsmótið í krullu: Keppt um Wallace-bikarinn í níunda sinn

Um helgina verður keppt til úrslita um Íslandsmeistaratitil í krullu - Wallace-bikarinn, sem gefinn var Íslendingum af Tom og Sophie Wallace í Seattle í Bandaríkjunum. Þessir frumkvöðlar að upptöku krulluíþróttarinnar á Íslandi eru báðir látnir, Sophie lést síðastliðið sumar í hárri elli. Keppt er í níunda sinn um þennan bikar.

Eins og fram hefur komið hér á vefnum fer úrslitakeppni Íslandsmótsins í krullu fram um helgina. Fyrstu leikir verða í kvöld kl. 22, síðan undanúrslit á laugardagsmorgun kl. 9.00 og úrslitaleikirnir sjálfir kl. 16.30 á laugardag.

Á Íslandsmótinu er keppt um Wallace-bikarinn en hann var gefinn Íslendingum af hjónunum Tom og Sophie Wallace í Granite Curling Club í Seattle í Bandaríkjunum. Þau eiga einmitt stóran þátt í því að krulla var tekin upp sem íþróttagrein innan ÍSÍ á tíunda áratug liðinnar aldar. Þau komu til Íslands síðast þegar Skautahöllin á Akureyri var vígð í mars 2000. Þau eru nú bæði látin, en Sophie lést síðastliðið sumar í hárri elli. Krullufólk minnist þeirra hjóna með þakklæti fyrir þeirra þátt í að koma íþróttinni af stað hér.

Þetta er í níunda sinn sem Íslandsmótið í krullu er haldið en það fór fyrst fram árið 2002. Mammútar hafa hampað bikarnum undanfarin tvö ár og unnu deildarkeppnina (undankeppni) nú þriðja árið í röð. Mammútar eiga nú möguleika á að landa þriðja Íslandsmeistaratitlinum en það hefur engu liði tekist enn sem komið er – hvað þá þrisvar sinnum í röð. Ísmeistarar hafa unnið titilinn tvisvar (2002 og 2004) eins og Mammútar (2008 og 2009). Það má því búast við nokkurri pressu á liðsmenn Mammúta um helgina.

Víkingar hafa oftast allra liða unnið til verðlauna á Íslandsmóti, alls fjórum sinnum, þar af einu sinni gull. Gísli Kristinsson hefur verið fyrirliði Víkinga í öll skiptin, auk þess sem hann var fyrirliði Fimmtíuplús sem varð Íslandsmeistari 2005. Fimm leikmenn hafa unnið fimm sinnum til verðlauna á Íslandsmótinu og eru þrír þeirra í úrslitakeppninni að þessu sinni. Sá einstaklingur sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari í krullu er Sigurgeir Haraldsson, alls fjórum sinnum. Hann á þó ekki möguleika á að vinna titilinn nú.

Til gamans er hér yfirlit um úrslit í innbyrðis viðureignum í deildarkeppninni á milli þeirra liða sem nú eigast við í úrslitakeppninni:

   Fyrri   
 Seinni 
 Mammútar - Garpar   
9-6
7-2
 Mammútar - Víkingar 
5-7
2-4
 Mammútar - Fifurnar
5-2
9-1
 Garpar - Víkingar
4-7
9-4
 Garpar - Fifurnar
2-5
6-3
 Víkingar - Fífurnar
3-5
8-3

Það vekur athygli þegar leikir þessara liða í deildarkeppninni eru skoðaðir að í fyrri umferð mótsins lentu Garpar í því bæði á móti Mammútum og Víkingum að tapa í aukaumferð þrátt fyrir að eiga þá síðasta stein. Deildarkeppnin var reyndar eins og svart og hvítt hjá Görpum ef litið er á fyrri og seinni hlutann því þeir voru neðstir með tvo sigra þegar deildarkeppnin var hálfnuð en "unnu" síðan seinni umferðina, unnu þá sex leiki af sjö. Ef aðeins fyrri umferðin hefði gilt væru Garpar og Fífurnar ekki í úrslitum heldur Riddarar og Skytturnar, ásamt Mammútum og Víkingum.

Í töflunni eru feitletraðir leikir þeirra liða sem eigast við í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og þar má sjá að Mammútar unnu báða leikina gegn Görpum en Víkingar og Fífurnar unnu hvort sinn leikinn í innbyrðis viðureign þessara liða. Víkingar unnu báða leikina gegn Mammútum, en þessi lið léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn bæði 2009 og 2008 og í bæði skiptin höfðu Mammútar betur. Víkingar unnu báða deildarleikina gegn Mammútum núna og hugsanlega lenda liðin saman í undanúrslitum eða úrslitum - eða ekki neitt.

Þegar talin eru saman úrslit í öllum innbyrðis leikjum þessara fjögurra liða í deildarkeppninni koma Mammútar og Víkingar út með fjóra sigra, en Fífurnar og Garpar með tvo.

Hér er að sjálfsögðu aðeins leikið að tölum. Þegar í leikina í kvöld og á morgun kemur skipta þessi úrslit engu - nema hvað heildarárangur í deildarkeppninni ræður því hvaða lið leika saman í fyrstu umferðinni og líka því hvaða lið hefur val um síðasta stein í þeim leikjum.