Vel heppnuð hokkíhelgi í Reykjavík

Myndir: Anna Guðný Egilsdóttir
Myndir: Anna Guðný Egilsdóttir


SA-krakkarnir fengu verðlaun fyrir mestu leikgleðina á helgarmóti 5., 6. og 7. flokks í Egilshöllinni. Ferðin tókst í alla staði frábærlega.

Hokkíkrakkar í 5., 6. og 7. flokki héldu suður til Reykjavíkur á föstudag til þátttöku á helgarmóti sem fram fór í Egilshöllinni.

Keppendur frá SA voru alls 48. Þrjú lið voru í 5. flokki, eitt í 5A og tvö í 5B, strákalið og stelpulið sem nefnt hefur verið Freyjur. Stelpurnar fengu til liðs við sig eina stelpu úr Birninum og eina úr SR og skemmtu sér mjög vel saman sem lið að sögn Söruh. Í 6. flokki voru tvö lið frá SA, 6A og 6B og eitt í 7. flokki.

Aðspurð kveðst Sarah Smiley þjálfari vera mjög ánægð með helgina í Reykjavík og í pistli til fréttaritara sagði hún m.a.: "Allir skemmtu sér mjög vel að spila leikina og þátttakendur stóðu sig vel fyrir hönd SA. SA vann til verðlauna fyrir mestu leikgleðina. Í hléinu á laugardag fóru krakkarnir í keilu í nýrri aðstöðu í Egilshöllinni. Þar skemmtu allir sér mjög vel einnig. Foreldrarnir sem skipulögðu ferðina fyrir hönd foreldrafélagsins stóðu sig gríðarlega vel. Allir foreldrar sem komu með gerðu sitt til að hjálpa til og þannig gekk þetta allt saman mjög auðveldlega fyrir sig. Jafnvel þótt allir séu nokkuð þreyttir eftir helgina hlakka allir til næsta helgarmóts í Reykjavík í apríl."

Myndirnar með fréttinni tók Anna Guðný Egilsdóttir, en fleiri myndir úr ferðinni má finna á Facebook-síðunni "SA hokkí yngri flokkar".