Tvímenningur - æfing og upprifjun í kvöld

Áætlað er að keppt verði miðvikudagskvöldin 19. og 26. október og svo 2. og 9. nóvember, hugsanlega oftar ef þarf, það fer eftir fjölda liða og uppsetningu mótsins.

Í hverju liði spila tveir leikmenn hverju sinni, en skrá má þrjá í hvert lið ef það hentar betur upp á að geta mætt í alla leiki. Í reglum WCF stendur að lið samanstandi af einum karli og einni konu og að ekki sé leyft að hafa varamenn - en við slökum á þessari reglu hér, m.a. vegna kynjahlutfalla.

Skráningu lýkur mánudagskvöldið 17. október, sendist í haring@simnet.is eða 824 2778, eða tilkynnist á æfingum.

Nokkur meginatriði úr reglunum sem gott er að muna:

  • Í upphafi er stillt upp einum steini frá hvoru liði á hinum enda brautarinnar, einum aftan við T-línuna og einum miðja vegu á milli ytri marka hringsins og framlínunnar (hog line).
  • Það lið sem tapar umferð á val um það í næstu umferð á eftir á hvorn staðinn það setur sinn stein.
  • Það lið sem á steininn við T-línuna á jafnframt síðasta stein í þeirri umferð. Liðið sem á stein fyrir framan húsið byrjar þá umferð.
  • Hvort lið spilar fimm steinum, annar leikmaðurinn sendir fyrsta og fimmta stein, hinn leikmaðurinn sendir hina þrjá. Heimilt er að leikmenn skipti um hlutverk á milli umferða.
  • Engum steini (eigin steinar þar meðtaldir) má skjóta út fyrr en seinna liðið spilar sínum öðrum steini (fjórði steinn sem sendur er í leiknum). Þetta á bæði við steina sem eru inni í hring og fyrir framan hring. Ef skotið er út steini áður en það er leyfilegt er skotsteinninn tekinn úr leik og öðrum steinum stillt upp eins og þeir voru fyrir skotið.
  • Allir leikir eru átta umferðir. Skorið er talið eins og í venjulegum krulluleik.

Til að skoða reglurnar sjálfar í heild á íslensku - smellið hér.