Íslandsmeistarar með stæl! (uppfærð frétt)

A- og B-lið 4. flokks SA. Einfaldlega MEISTARAR!
A- og B-lið 4. flokks SA. Einfaldlega MEISTARAR!


Krakkarnir í fjórða flokki í íshokkí kórónuðu aldeilis frábæran vetur með stæl, unnu síðasta helgarmót Íslandsmótsins og jafnframt Iceland Ice Hockey Cup, sem fram fóru í Reykjavík um helgina. Uppskeran eftir veturinn eru tveir Íslandsmeistaratitlar, sigur á Iceland Ice Hockey Cup og fjöldi einstaklingsverðlauna.

Þar sem SA hafði þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn bæði í A- og B-liðum var síðasta hluta Íslandsmótsins steypt saman við Iceland Ice Hockey Cup sem fram fór í Egilshöllinni um liðna helgi. Til leiks mættu tvö lið frá Birninum og SA, eitt frá SR og tvö finnsk lið.

Skemmst er frá því að segja að SA-liðin komu heim með Íslandsmeistarabikar, Iceland Ice Hockey Cup bikar og þrjá einstaklingsbikara. SA vann alla leikina á Íslandsmótinu í vetur, en einn þó reyndar í framlengingu.

Leikir A-liðsins
SA - Blues1  7-4
SA - SR  11-2
SA - Björninn  5-0
SA - Blues2  13-0
Undanúrslit: SA - Blues 1  9-0
Úrslit: SA - Björninn  4-0

Í keppni B-liðanna áttust við SA og Björninn. SA vann alla leikina og lauk þar með mótinu með fullu húsi stiga, vann semsagt alla leikina gegn Birninum í vetur. Í lokin voru B-liðin svo sameinuð og kepptu þau við liðið sem lenti í 5. sæti A-liðanna, Blues 2. Sá leikur fór 2-4, Blues 2 í vil.

SA hirti nær öll verðlaun sem voru í boði, nema fyrir besta varnarmanninn. Silvía Rán Björgvinsdóttir var valin mikilvægasti leikmaðurinn, og skoraði jafnframt flest mörk SA-leikmanna og varð næstmarkahæst á mótinu með 11 mörk. Sigurður Freyr Þorsteinsson var stigahæsti leikmaðurinn, gerði 9 mörk og átti 8 stoðsendingar. Heiðar Örn Kristveigarson var valinn besti sóknarmaðurinn.

Öll úrslit, markaskorara og fleira úr leikjunum má finna á tölfræðivef mótsins.

Þetta lokamót kórónar einfaldlega frábæran árangur þessa hóps í vetur og ber gott vitni um þá hæfileika og þann baráttuanda sem býr í þessum hópi og um leið ber þetta þjálfurum hópsins gott vitni því engum blöðum er um það að fletta að Sarah Smiley og hennar aðstoðarfólk á mikinn þátt í þessum árangri - og auðvitað öflugur foreldrahópur sem stendur að baki þessu liði.

Hinn góðkunni Þorsteinn Vignisson mundaði myndavélina og nú eru myndir frá honum komnar í myndaalbúm. (Leiðrétt frá fyrri frétt: Það var ekki Steini sem keyrði rútuna.)

Ein úr hópnum, Sunna Björgvinsdóttir, átti þessar skemmtilegu myndir frá mótinu og gaf okkur leyfi til að birta þær hér.