Stefán 5 - SR 1 (Víkingar 6 - SR 1)

Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Víkingar áttu ekki í miklum erfiðleikum með SR þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Víkingar sigruðu 6-1 og skoraði Stefán Hrafnsson fimm af mörkunum.

Víkingar skoruðu tvö mörk í fyrsta leikhluta, fyrst Stefán Hrafnsson og síðan Sigurður S. Sigurðsson. Stefán skoraði svo tvö í öðrum leikhluta, en Pétur Maack skoraði eina mark SR og minnkaði muninn í 3-1 um miðjan leikhlutann. Aftur skoraði svo Stefán tvö mörk í þriðja leikhlutanum. Lars Foder átti sem fyrr flestar stoðsendingar, alls þrjár.

Yfirburðir Víkinga voru talsverðir og þarf ekki annað en að skoða varin skot til að gera sér í hugarlund hvernig leikurinn var. Markvörður SR varði alls 46 skot í leiknum, en markvörður Víkinga varði 20. Í öðrum leikhluta áttu SR-ingar reyndar fleiri skot á markið en Víkingar og rataði eitt þeirra í markið. Lokatölur: Víkingar - SR 6-1 (2-0, 2-1, 2-0).

Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Stefán Hrafnsson 5/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/1
Lars Foder 0/3
Orri Blöndal 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsingar: 26 mínútur
Varin skot: 20 (3+15+2)

SR
Pétur Maack 1/0
Gunnlaugur Björnsson 0/1
Refsingar: 32 mínútur
Varin skot: 46 (21+10+15)

Það er skammt stórra högga á milli hjá Víkingum því þeir leika sinn næsta leik á morgun, laugardaginn 9. febrúar. Þá koma Bjarnarmenn í heimsókn er leikurinn mikilvægur í baráttu liðanna um deildarmeistaratitilinn og þar með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Leikurinn hefst kl. 16.30. Það verður reyndar tvöföld skemmtun á morgun því strax að loknum leik karlaliðanna mætast Ynjur og Björninn í mfl. kvenna.

Víkingar eru með sigrinum á SR komnir í 30 stig að loknum 12 leikjum. Björninn hefur 34 stig eftir 13 leiki. Með sigri á morgun geta Víkingar því komist alveg að hælunum á Bjarnarmönnum, en liðin mætast svo aftur strax í næstu viku, þriðjudaginn 12. febrúar.

Sigurgeir Haraldsson mundaði vélina í gærkvöldi. Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndaalbúm hans frá leiknum.