Karfan er tóm.
Í pistli Margrétar Ólafsdóttur fararstjóra íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí sem er á Spáni þessa vikuna
að taka þátt í HM kemur fram að nokkrar úr liðinu urðu fyrir óskemmtilegri upplifun í síðari hluta leiks og eftir leik í
gær.
Sarah Smiley, fyrirliði íslenska liðsins, var valinn maður leiksins úr okkar röðum, en liðið lék án tveggja leikmanna því ein er með flensu og önnur meiddist í upphitun.
Pistillinn er í heild á vef ÍHÍ - hér - en þar er meðal annars þessi klausa:
"Þegar leið á leikinn fóru stelpurnar að finna fyrir áhrifum súrefnisskorts en Puigcerda er í eitt þúsund metra hæð, sem þær eru ekki vanar að spila í. Þær hörkuðu af sér og kláruðu leikinn með sóma. Þegar í búningsklefann var komið fóru þær að eiga í vandræðum með öndun, flökurleiki og svimi og fleiri einkenni komu í ljós. Læknirinn frá Króatíu var staddur í námunda við okkur og aðstoðaði hann Tinnu við að hlúa að þeirri sem verst var stödd og kallað var á sjúkrabíl. Sjúkraliðar komu með súrefni og henni var rennt á börum út í sjúkrabílinn. Þegar þar var komið var henni farið að líða betur þannig að ekki kom til ferðar á sjúkrahús. Öðrum liðsmanni sem lá út af með hátt undir fótum, með bláan fölva á kinn, var sinnt af mótslækninum. Báðar þessar stelpur og restin af liðinu jafnaði sig er leið á daginn. Þetta var óþægileg reynsla fyrir hópinn, sem kemur þó ekki fyrir aftur þar sem búið er að lofa okkur súrefniskút á bekkinn í næsta leik. Þrír leikmenn fengu einnig slæma byltu við árekstra í leiknum, sem þær koma vonandi til að jafna sig til fulls á. Þessi atvik skyggðu því miður eilítið á gleðina yfir sigrinum en þær geta svo sannarlega verið stoltar af vel spiluðum leik miðað við aðstæður."
Við sendum stelpunum að sjálfsögðu baráttukveðjur og blásum smá norðangarra í áttina til þeirra í Puigcerda á Spáni og vonum að súrefnisskortur geri ekki aftur vart við sig.