Karfan er tóm.
Það getur ekki annað verið en að Thelma María Guðmundsdóttir, landsliðskona úr Skautafélagi Akureyrar, hafi sett met í
morgun þegar hún lék sinn fyrsta landsleik í íshokkí og skoraði fyrsta mark Íslands eftir aðeins 40 sekúndna leik. Ísland
sigraði Suður-Afríku með fimm mörkum gegn einu.
Thelma María Guðmundsdóttir opnaði markareikning íslenska liðsins í sinni fyrstu landsliðsferð strax eftir 40 sekúndka leik. Þetta verður að teljast algjörlega frábær byrjun á landsliðferlinum, ekki aðeins að Thelma María skyldi skora eftir aðeins 40 sekúndna leik heldur einnig vegna þess að hún er ekki orðin sautján ára - nánar tiltekið er hún 16 ára, 10 mánaða og 18 daga gömu! Við höfum ekki kannað hve fljótt landsliðsfólk í öðrum greinum eða annað landsliðsfólk í íshokkí hefur skorað sín fyrstu mörk, né heldur aldur landsliðsfólks sem skorar í fyrsta skipti - en við leyfum okkur samt að fullyrða að hér hlýtur að vera einhvers konar met hjá Thelmu. Það er líka gaman að geta þess að sú sem átti stoðsendinguna í þessu marki hjá Thelmu Maríu í dag, Birna Baldursdóttir, var sjálf 16 ára og tveggja daga gömul þegar Thelma fæddist! (Vonum að Birna fyrirgefi okkur þennan fróðleik.)
Íslenska liðið virðist hafa komið til leiks af miklum krafti og ákveðið að keyra yfir andstæðingana strax í byrjun. Á fyrstu ellefu mínútunum skoraði íslenska liðið fjórum sinnum, áður en þær suður-afrísku komust á blað. Staðan 4-1 eftir fyrsta leikhluta. Ekkert var skorað í öðrum leikhluta og í þeim þriðja bætti íslenska liðið við einu marki. Lokatölur: Ísland - Suður-Afríka 5-1 (4-1, 0-0, 1-0).
Flott byrjun hjá íslenska liðinu. Nú fá stelpurnar eins dags frí og mæta svo króatíska liðinu á miðvikudag kl. 11.00
að íslenskum tíma.
Mörk/stoðsendingar
Sarah Smiley 1/2
Birna Baldursdóttir 1/1
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Kristín Ingadóttir 1/0
Jónína Guðbjartsdóttir 1/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/1
Guðrún Blöndal 0/1
Arndís Eggerz Sigurðardóttir 0/1
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir varði 16 skot í íslenska markinu.
Íslenska liðið fékk á sig 8 refsimínútur en það suður-afríska 14 mínútur.
Ítarlegri upplýsingar og tölfræði má finna á heimasíðu mótsins, meðal annars beina atvikalýsingu úr leiknum og svo leikskýrsluna sjálfa.