Aðventumót Krulludeildar fer fram í desember og verður með öðru sniði en hefðbundin mót á vegum Krulludeildar.Í fyrsta lagi ber að nefna að mótið hefst 1. desember og verður leikið meðfram Bikarmóti Krulludeildar að hluta, þannig að þeir einstaklingar sem ná lengst í Bikarmótinu fá færri tækifæri til að safna stigum í Aðventumótinu, en um leið fá þeir sem falla úr leik í Bikarmótinu áfram tækifæri til að taka þátt í keppni. Leikdagar Aðventumótsins verða 1., 8., 13., og 15. desember (leikdagar Bikarmótsins eru 6., 8. og 13. desember).
Reglur mótsins verða sem hér segir:
- Aðventumótið er einstaklingskeppni, þannig að hver leikmaður fær í hvert skipti þau stig sem hans lið ávinnur sér.
- Hver leikur er þrjár umferðir, jafntefli eru leyfð.
- Kastað er upp á hvort liðið hefur val um síðasta stein í upphafi leiks.
- Leiknir eru tveir leikir hvert keppniskvöld.
- Gefin eru 10 stig fyrir sigur, 5 stig fyrir jafntefli, 2 stig fyrir hverja unna umferð og 1 stig fyrir hvern skoraðan stein.
- Fyrir fyrstu umferð er dregið saman í lið, 3-4 í liði eftir því hve margir mæta til leiks. Liðsmenn koma sér sjálfir saman um röð leikmanna í leik.
- Fyrir aðrar umferðir er þátttakendum raðað í hópa eftir stöðunni og síðan dregið saman í lið, t.d. þannig að ef sextán leikmenn taka þátt (fjögur lið) eru fjórir efstu í einum hópi og geta ekki lent saman í liði, fjórir næstu eru saman í hópi og geta ekki lent saman í liði o.s.frv. Fjöldi hópa og fjöldi í hóp markast af fjölda þátttakenda og liða hverju sinni.
- Fjögur bestu skor hvers þátttakanda gilda þegar upp er staðið.
- Verði leikmenn jafnir að stigum miðað við fjögur bestu skor er fimmta besta skori bætt við og svo framvegis þar til sigurvegari fæst.
Ekki þarf að skrá sig sérstaklega til leiks í Aðventumótinu, bara mæta til leiks áður en dregið eða raðað er saman í lið fyrir hverja umferð.