Karfan er tóm.
Á meðan úrslitaleikur Bikarmótsins fór fram mættu aðeins fimm manns til að spila í Aðventumótinu. Sá sem þetta ritar varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna báða leiki sína í kvöld og er því kominn í efsta sætið með 64 stig, næstur er Jens Kristinn Gíslason með 42 stig, þá Sigfús Sigfússon með 40 stig. Stigatalan gefur þó ekki rétta mynd sem stendur því þeir sem náðu lengst í bikarmótinu gátu ekki keppt í Aðventumótinu í kvöld, auk þess sem aðeins fjögur bestu skor hjá hverjum og einum gildir þegar upp er staðið.
Í fyrri leik kvöldsins drógust Haraldur og Jens saman í lið gegn Jóni G. Rögnvaldssyni, Svanfríði Sigurðardóttur og Sigfúsi Sigfússyni. Haraldur og Jens fóru með sigur af hólmi, 6-1, fengu fyrir það 20 stig á móti þremur stigum andstæðinganna. Í seinni umferð kvöldsins drógust svo Haraldur og Jón saman gegn Jens, Svönu og Sigfúsi, Haraldur og Jón unnu, 4-0 og fá 20 stig gegn engu.
Tvær síðustu umferðir Aðventumótsins fara fram miðvikudagskvöldið 15. desember en þá fá þeir sem aðeins hafa leikið tvo leiki hingað til tækifæri til að hala inn stigum og ná efstu mönnum. Þetta verður jafnframt síðasta krullukvöldið fyrir jól því krullutímar mánudaginn 20. desember, miðvikudaginn 22. desember og mánudaginn 27. desember falla niður. Hins vegar fer hið árlega og skemmtilega áramótamót fram miðvikudagskvöldið 29. desember. Nánar um það síðar.