Karfan er tóm.
Eftir brösuga byrjun náðu okkar menn heilsu og unnu báða leiki sína í dag og komas þar með í umspil gegn Slóvenum um
það hvort liðið fer í úrslitakeppni.
Fyrri leikur dagsins var einmitt gegn Slóvenum og höfðu okkar menn nokkuð auðveldan sigur. Þeir komust í 4-2 í fyrri hluta leiksins og bættu svo strax við fimm stigum eftir hlé. Slóvenar svöruðu reyndar með fjórum stigum, en þá komu þrjú íslensk stig og lokatölur: Ísland - Slóvenía 12-6.
Fyrir lokaumferðina var ljóst að Hvít-Rússar, Króatar og Tyrkir höfðu tryggt sér sæti í úrslitum C-keppninnar, en Íslendingar áttu möguleika á að komast í umspil gegn Slóvenum um fjórða lausa sætið í úrslitum með því að vinna Rúmena.
Leikurinn gegn Rúmenum var spennandi og jafn. Rúmenar höfðu yfirhöndina í upphafi og lentu okkar menn undir, 1-3. Rúmenar héldu forskotinu og staðan var 2-5 að loknum sex umferðum. Okkar menn náðu hins vegar að jafna í næstsíðustu umferðinni, 5-5, og þurfti raunar mælingu til að úrskurða hvort þeir hefðu skorað tvo eða þrjá steina. Spennan var því mikil í lokin, en okkar menn höfðu það, skoruðu í lokaumferðinni og fóru með sigur af hólmi - Ragnar Jón Ragnarsson var með knappa textalýsingu á bloggsíðu liðsins í dag.
Íslendingar og Slóvenar eru því jafnir í 4.-5. sæti með tvo sigra. Ef fréttaritari hefur lesið reglurnar rétt þýðir þetta að íslenska liðið fer í umspilsleik gegn Slóvenum um það hvort liðið verður fjórða lið inn í úrslitakeppnina. Nánar um framhaldið síðar í kvöld eða í fyrramálið.