Karfan er tóm.
Krullulandsliðinu gengur erfiðlega í C-keppni Evrópumótsins, en liðið er án sigurs eftir fimm umferðir.
Liðið byrjaði illa og tapaði báðum leikjum þriðjudagsins stórt. Fyrst 0-9 gegn Hvíta-Rússlandi og síðan 4-12 tap gegn Lúxemborg þar sem slæm byrjun réði úrslitum því staðan var orðin 0-7 eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Annar keppnisdagur var betri, þó svo báðir leikir dagsins hafi tapast. Wales hefur haft sterku liði á að skipa í gegnum tíðina og yfirleitt verið í B-deild, en er nú í C-deildinni. Í leiknum lentu Íslendingar aftur undir í fyrri hluta leik, staðan orðin 1-6 eftir fjórar umferðir. Okkar menn náðu að klóra í bakkann undir lokin, en það dugði ekki og 6-8 tap staðreynd. Í seinni leik dagsins sýndi íslenska liðið loks sitt rétta andlit, en var óheppið og tapaði með eins stigs mun gegn Serbíu. Sá leikur fór í aukaumferð eftir að Íslendingar jöfnuðu í 7-7 í tíundu umferðinni. Serbar skoruðu aukastigið og sigruðu, 7-8.
Fyrri leikur fimmtudagsins var gegn Slóvenum og þar vaknaði von í fyrri hluta leiks þegar íslenska liðið skoraði fimm stig í annarri umferðinni og var komið í 6-1 eftir þrjár umferðir. En þá snéru Slóvenar við blaðinu, náðu forystunni og héldu henni. Niðurstaðan 8-12 tap.
Íslenska liðið er því enn án sigurs á mótinu þegar tveimur umferðum er ólokið. Í kvöld kl. 20 að dönskum tíma mæta þeir Rúmenum, en lokaleikurinn verður gegn Írum á morgun kl. 13 að dönskum tíma.
Íslenska liðið er skipað þeim Hallgrími Valssyni, Árna Grétari Árnasyni, Ólafi Hreinssyni og Kristjáni Bjarnasyni, en lið þeirra, Garpar, varð Íslandsmeistari sl. vor.
Vonandi hafa menn áfram trú á verkefninu, gleyma því sem er að baki og koma ferskir til leiks í lokaleikjum mótsins.
Áfram Ísland!