Karfan er tóm.
Gimli Cup hófst í gær, 1. nóvember og er þetta í tíunda sinn sem keppt er um Gimli-bikarinn. Krullufréttaritari hefur rýnt í úrslit fyrri ára og tekið saman smá tölfræði um sigurvegara og verðlaunahafa.
Segja má að mótið marki tímamót í sögu Krulludeildarinnar með því að þetta verður tíunda Gimli-mótið, en ekkert annað krullumót hefur verið haldið jafnoft, nema hugsanlega svokallað Áramótamót, sem er stutt skemmtimót haldið á milli jóla og nýárs á hverju ári. Fréttaritari hefur ekki á reiðum höndum upplýsingar um það hve oft Áramótamótið hefur farið fram.
Gimli bikarinn sjálfur er hinn glæsilegasti en hann var gefinn Krulludeild Skautafélags Akureyrar við opnun skautahallarinnar 25. mars árið 2000. Það voru hjón af íslenskum ættum í Gimli, Manitóba, þau Alma og Ray Sigurdsson, sem gáfu okkur þennan glæsilega grip sem keppt er um.
Garpar eru sigursælasta liðið á Gimli Cup fram að þessu, hafa samtals fimm sinnum unnið til verðlauna, þar af tvisvar til gullverðlauna. Mammútar og Skytturnar hafa reyndar einnig unnið Gimli-bikarinn tvisvar, eins og Garpar.
Þrír einstaklingar hafa hampað Gimli-bikarnum þrisvar, þeir Ágúst Hilmarsson, Hallgrímur Valsson og Jón S. Hansen. Fimm einstaklingar hafa unnið fimm sinnum til verðlauna í mótinu, þeir Ágúst Hilmarsson, Hallgrímur Valsson, Árni Arason, Björn Sigmundsson og Haraldur Ingólfsson.
Alls hefur 41 einstaklingur í átta liðum unnið til verðlauna á Gimli Cup frá upphafi. Hingað til hafa 185 leikir farið fram á mótinu og fer leikjafjöldinn því yfir 200 áður en mótinu lýkur þetta árið.
Sigurlið í Gimli Cup frá upphafi:
2001: Lið án nafns - Ásgrímur Ágústsson, Gísli Kristinsson, Hallgrímur Valsson og Jón Rögnvaldsson.
2002: Víkingar - Birgitta Reinaldsdóttir, Björn Arason, Gísli Kristinsson, Jón S. Hansen.
2003: Garpar - Ágúst Hilmarsson, Ásgrímur Ágústsson, Hallgrímur Valsson, Magnús E. Finnsson, Sigfús Sigfússon.
2004: Garpar - Davíð Valsson, Guðmundur Pétursson, Hallgrímur Valsson, Magnús E. Finnson, Sigurður Gunnarsson.
2005: Skytturnar - Ágúst Hilmarsson, Birgitta Reinaldsdóttir, Jón S. Hansen, Sigurður Gunnarsson, Sigurgeir Haraldsson
2006: Mammútar - Arnar Sigurðsson, Björgvin Guðjónsson, John Cariglia, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason
2007: Bragðarefir - Davíð Valsson, Heimir Jónasson, Hólmfríður Þórðardóttir, Jóhann Ingi Einarsson, Jón Einar Jóhannsson.
2008: Mammútar - Arnar Sigurðsson, John Cariglia, Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason
2009: Skytturnar - Ágúst Hilmarsson, Árni Arason, Árni Ingólfsson, Jón S. Hansen, Sigurgeir Haraldsson.
Yfirlit um alla verðlaunahafa má sjá í pdf-skjali - sjá tengil hér fyrir neðan.