Karfan er tóm.
Fyrstu leikir eru kl. 9.00 en þá eigast við þau lið sem eiga einhvern möguleika á að vinna sér rétt til að spila um annað hvort gull eða bronsverðlaun (tapliðið í leik um gullverðlaun fær silfurverðlaun, hafi einhver ekki áttað sig á því). Kl. 11.30 eigast við liðin í neðri hluta mótsins.
Eftir leiki laugardagsmorgunsins verða úrslitaleikir sem hefjast kl. 14.00. Þá eigast við liðin í 1. og 2. sæti í leik um gullið og liðin í 3. og 4. sæti í leik um bronsverðlaun.
Eftir úrslitaleikina göngum við frá eftir okkur í Skautahöllinni (margar hendur vinna létt verk, ekki fáar hendur öll verk). Næst á dagskrá eftir það er lokahóf Ice Cup mótsins þetta árið og verður það á sama stað og í fyrra, á annarri hæð í Greifanum. Lokahófið verður hefðbundið, húsið verður opnað kl. 19.30, borðhald hefst um eða upp úr kl. 20.00. Á dagskránni eru meðal annars verðlaunaafhending og orðið verður laust fyrir þá sem hafa eitthvað skemmtilegt að segja. Hafi einhver úr okkar hópi áhuga á að skemmta eða veit um ódýra og skemmtilega skemmtikrafta er viðkomandi beðin(n) um að gefa sig fram hið fyrsta.
Þeir sem ekki hafa látið vita hvort þeir ætla á lokahófið eru vinsamlega beðnir um að skrá sig við fyrsta tækifæri á laugardagsmorgni í sjoppunni í Skautahöllinni. Innifalið í þátttökugjaldi eru fjórir miðar fyrir keppendur, en miðar umfram þann fjölda kosta 4.000 krónur og eru væntanlegir gestir á lokahófinu hvattir til að ganga frá kaupum á miðum hið fyrsta. Eigi eitthvert lið eftir að gera upp þátttökugjaldið er afbragðs gott tækifæri til að ganga frá því fyrir hádegi á laugardag.