Karfan er tóm.
Einn Rússi kominn, tveir í Kaupmannahöfn. Þrjár bandarískar á flugi frá Boston til... Glasgow.
Fagmaður verður að verki við ísgerð í Skautahöllinni í dag og er krullufólk hvatt til að koma, sjá og læra réttu handtökin.
Eftir langt ferðalag kom Anton Batugin loksins til Akureyrar frá Glasgow upp úr miðnætti í nótt. Hann var síðan mættur á svellið ásamt Hallgrími formanni snemma í morgun til aðstoðar við að gera svellið sem best úr garði fyrir mótið.
Anton er lærður krulluísgerðarmaður og starfar við það í Moskvu. Hann hefur einnig unnið við ísvinnsluna á mörgum stórmótum, nú síðast í Chelyabinsk þar sem HM50+ og HM Mixed Doubles fóru fram á 14 brautum í risastórri skautahlaupshöll
Þeir sem hafa áhuga á að læra hvernig á að bóla krulluís geta komið inn í Skautahöll um kl. 17.30 og séð hvernig á að bera sig að í þeim efnum. Hallgrímur, Anton og fleiri verða reyndar í Skautahöllinni meira og minna í allan dag og geta áhugasamir því komið nánast hvenær sem er til að fylgjast með.
Af ókomnum keppendum er það að frétta að tvær rússneskar stúlkur flugu frá Moskvu í morgun og bíða nú í Kaupmannahöfn eftir fréttum af flugi áfram til Keflavíkur. Þær áttu pantað flug áfram til Akureyrar í kvöld en ljóst er að þær ná því ekki. Því hafa þær verið bókaðar á flug norður í fyrramálið. Ef krullufólk veit um ódýra gistingu í Reykjavík næstu nótt má hafa samband við Halla í s. 824 2778.
Þær bandarísku sem nú eru að koma á Ice Cup í fjórða skiptið vilja greinilega leggja ýmislegt á sig til að komast. Fluginu þeirra frá Boston seinkaði um 12 tíma en upp úr klukkan níu í morgun fór vélin af stað... til Glasgow. Það er því óvíst með þær, hvort þær síðan ná beint áfram til Akureyrar frá Glasgow í kvöld eða á morgun, eða hvort þær fljúga til Keflavíkur í kvöld.