Karfan er tóm.
Síðustu keppendurnir eru á leið til Akureyrar frá Reykjavík eftir langt ferðalag og langa bið á flugvöllum. Sue Haigney, Sue Porada og Gwen Krailo héldu út á flugvöll í Boston á þriðjudagskvöld og áttu flug þaðan til Keflavíkur kl. 1.30 að íslenskum tíma og áttu að lenda á miðvikudagsmorgun kl. 6.30. Það flug tafðist til 9.30 um morguninn og fór vélin á endanum til Glasgow og lenti þar um 15.40. Þar biðu þær fram á kvöld og fengu þá loks flug til Keflavíkur og lentu þar seint í gærkvöldi. Þær náðu síðan hvíld á góðu hóteli í nótt og áttu bókað flug norður í morgun kl. 9.40.
Tatiana Nikitina og Tatiana Sukhova lögðu af stað frá Rússlandi í morgunsárið á miðvikudag, flugu til Kaupmannahafnar og áttu bókað flug áfram til Keflavíkur sama dag og svo kvöldflug norður til Akureyrar. Þegar þær komu til Kaupmannahafnar var allt lokað og þær þurftu að bíða í Kaupmannahöfn langt fram á kvöld og fengu loks flug til Keflavíkur um eittleytið í nótt, lentu því í Keflavík kl. 4.10. Þaðan héldu þær til Reykjavíkur og út á Reykjavíkurflugvöll þar sem þær biðu fram á morgun og áttu bókað flug í sömu vél og þær bandarísku.
Útvarpið sagði síðan í níufréttunum að Keflavíkuflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur væru lokaðir að minnsta kosti fram yfir hádegi. Þá fengu menn fyrir hjartað og sáu fram á að ef til vill þyrfti að fara að redda bílum undir þessa keppendur - en svo reyndist útvarpið hafa rangt fyrir sér, vélin fór í loftið kl. 9.53 og síðustu keppendurnir á Ice Cup eru því á leið til Akureyrar þegar þetta er skrifað, væntanlega óþreyjufullir eftir að komast í gott rúm og ná almennilegum svefni fyrir fyrsta leik. Þessar fimm eru í liðunum Moscow og Strympa en þau lið eiga fyrsta leik kl. 20 í kvöld.
Eins og áður hefur komið fram hætti líka eitt lið við að reyna að koma til Íslands. Það var lið frá Seattle í Bandaríkjunum en tveir úr því liði voru reyndar í skemmtisiglingu á Miðjarðarhafinu. Ákvörðunin um að hætta við tengdist auðvitað gosinu og þeirri óvissu hvort fólk kæmist á réttum tíma og hvort ef til vill aðeins hluti liðsins kæmist.