Ice Cup: Tímabært að huga að skráningu

Það styttist í Ice Cup, síðasti skráningardagur liða er fimmtudagurinn 22. apríl. Ætlar þitt lið að vera með?

Eins og áður hefur komið fram verður Ice Cup haldið 5.-7. maí þetta árið og verður lokapunkturinn á Krulludögum 2011. Nú þegar er vitað um nokkra erlenda leikmenn sem koma til landsins til að taka þátt í Ice Cup og ein af dönsku vinkonum okkar mætir fyrr til leiks og verður leiðbeinandi á Krulludögum. Nánar um það síðar.

Nú þegar er frágengið að liðið Strympa verður með á Ice Cup, eins skipað og síðastliðið ár (Gwen Krailo, Susan Porada, Susan Haigney og Haraldur Ingólfsson). Hið sama má segja um silfurverðlaunahafana frá því í fyrra, Confused Celts. Hjónin Barbara og David Smith mæta til leiks á ný og fá til liðs við sig sömu menn og í fyrra, þá Davíð Valsson og Jón Einar Jóhannsson. 

Á meðal þátttakenda verður einnig blandað lið - skipað einum kanadískum karlmanni og tveimur bandarískum konum. Þetta lið hefur óskað eftir því að fá heimamann til liðs við sig. Áhugasamir hafi samband við Harald (s. 824 2778, haring@simnet.is).

Það er því tímabært fyrir liðin - og mjög hentugt fyrir skipuleggjendur - að krullufólk fari að huga að því hvort líkur eru á forföllum í liðum, hverjir ætla að vera með og hverjir ekki, hverjir hafa áhuga á að spila með erlendum gestum í liði. Er eftir nokkru að bíða með að skipuleggja liðið og skrá það til leiks?

Upplýsingar um Ice Cup má finna hér - Skráning fer fram í gegnum skráningarsíðu á netinu - sjá hér.