Karfan er tóm.
Garpar lentu í streði með Fífurnar í kvöld, lentu 0-3 undir en náðu þó strax aftur yfirhöndinni, Fífurnar jöfnuðu aftur en Garpar náðu að knýja fram sigur í lokaumferðinni. Mammútar voru komnir upp að vegg og virtust vera með tapaðan leik gegn Skyttunum en á einhvern furðulegan hátt misstu Skytturnar 7-1 forskot niður í 7-8 tap í aukaumferð. Með sigri hefðu Skytturnar náð að halda lífi í voninni um bronsverðlaun og með tapi hefðu Mammútar séð á eftir Íslandsmeistaratitlinum í hendur Garpa. Það snérist hins vegar við, Skytturnar eiga ekki lengur möguleika á bronsinu, en Mammútar halda enn í vonina um að verja Íslandsmeistaratitilinn.
Þar sem Fálkar sigruðu Víkinga og Skytturnar töpuðu sínum leik er ljóst að Fálkar eru öruggir í þriðja sætinu með sex sigra og hljóta því bronsverðlaunin á þessu Íslandsmóti. Liðið hefur lokið keppni og situr yfir í lokaumferðinni.
Í humátt á eftir Fálkunum koma Skytturnar, Víkingar og Riddarar með fjóra sigra og eiga því í harðri baráttu um fjórða sætið. Hins vegar er ljóst að Fífurnar ná ekki að hífa sig uppúr botnsætinu þrátt fyrir að hafa náð smá kipp í byrjun mánaðarins þegar liðið vann tvo leiki í röð.
Garpar eru enn í efsta sætinu með tíu sigra en Mammútar hafa níu eftir sigurinn á Skyttunum í kvöld. Garpar hafa því tryggt sér að minnsta kosti úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn - þ.e. ef þeir skyldu tapa og Mammútar vinna í lokaumferðinni. Garpar geta hins vegar einfaldlega tryggt sér titilinn með því að leggja Víkinga í lokaumferðinni eða ef Mammútar tapa. Mammútar verða að vinna sinn leik og vonast til að Garpar tapi svo þeir eigi möguleika á að verja titilinn. Endi þessi lið jöfn kemur til aukaleiks um sigur í mótinu þar sem þau unnu hvort sinn leikinn sín á milli og árangur í skotum að miðju gildir ekki sem úrskurðaratriði um það hvaða lið hampar titlinum.
Úrslit 12. umferðar:
Víkingar - Fálkar 7-10
Fífurnar - Garpar 5-7
Skytturnar - Mammútar 7-8
Lokaumferð Íslandsmótsins fer fram mánudagskvöldið 28. mars:
Braut 2: Riddarar - Mammútar
Braut 4: Skytturnar - Fífurnar
Braut 5: Víkingar - Garpar
Ísumsjón: Mammútar, Fífurnar, Garpar