Karfan er tóm.
Þrír af fjórum leikjum kvöldsins virtust stefna í örugga sigra en þó skipaðist skjótt veður í lofti í einum þeirra. Skytturnar sigruðu Svarta gengið örugglega og hið sama má segja um sigur Mammúta á Üllevål. Víkingar höfðu yfirburðastöðu gegn Riddurum þegar fimm umferðum var lokið, staðan orðin 7-1. Riddurum tókst þó hið nær ómögulega, skoruðu sex stig í lokaumferðinni með því að skjóta inn steini þannig að skotsteinninn rúllaði einnig inn og báðir gáfu stig en fyrir í hringnum voru fjórir steinar frá Riddurunum. Þannig náðu þeir að knýja fram aukaumferð en það dugði þeim þó ekki þegar upp var staðið, Víkingar skoruðu eitt í aukaumferðinni og mörðu sigur í þessum "ójafna" leik. Garpar og Fífur börðust til síðasta steins þar sem Fífurnar áttu möguleika á skoti sem hefði getað gefið þeim þrjú stig og sigur en það skot tókst ekki og Garparnir unnu.
Víkingar og Mammútar eru því áfram á toppnum. Víkingar, sem nú hafa unnið fjóra leiki í röð, teljast ofar þar sem liðið hefur þegar unnið báða leikina gegn Mammútum, en bæði eru með átta sigra. Mammútar eiga þó leik til góða. Garpar eru komnir í þriðja sæti eftir að hafa tekið sig verulega á í síðari umferðinni, hafa unnið fimm af sex leikjum í seinni hlutanum. Árangur Garpanna í síðari hlutanum helst einnig í hendur við árangur þeirra í skotkeppninni þar sem fyrri og síðari hluti mótsins er eins og hvítt og svart. Meðaltalið í skotum Garpanna í fyrri umferðinni var rúmlega 179 sentímetrar en það sem af er síðari hluta mótsins er meðaltalið 45 sentímetrar. Þegar þetta er svo reiknað saman og hæsta gildi tekið frá er meðaltalið 96,1 sentímetri og hafa Garpar þar næstbesta árangur allra liða. Eins og áður hefur verið nefnt er mjög líklegt miðað við stöðuna í mótinu að grípa þurfi til útreikninga á innbyrðis viðureignum til að raða þeim í endanlega röð og jafnvel árangursins í skotkeppninni ef hitt dugar ekki.
Fífurnar, Riddarar og Skytturnar hafa nú sex sigra (og myndu raðast í þessa röð út frá innbyrðis viðureignum ef þau enduðu þrjú jöfn). Fífurnar eiga þó aðeins eftir einn leik en bæði Riddarar og Skyttur eiga inni frestaðan leik. Üllevål og Svarta gengið hafa fjóra vinninga en Üllevål á inni tvo frestaða leiki og Svarta gengið einn. Staðan er því nokkuð óljós enn vegna þriggja frestaðra leikja en þeir eru á dagskránni á miðvikudagskvöld (17. mars) og fimmtudagskvöld (18. mars) þannig að þegar kemur að lokaumferðinni verða öll liðin búin með þrettán leiki og ef til vill hefur staðan þá skýrst eitthvað.
Öll úrslit, leikjadagskrá og tölfræði má finna í excel-skjali hér.
Úrslit þrettándu umferðar:
Fífurnar (185,4) - Garpar (21) | 3-6 |
Skytturnar (185,4) - Svarta gengið (185,4) | 9-4 |
Víkingar (185,4) - Riddarar (100) | 8-7 |
Üllevål (185,4) - Mammútar (68) | 1-10 |
Staðan er nú þessi:
Sigrar | Töp | |
Víkingar | 8 | 5 |
Mammútar | 8 | 4 |
Garpar | 7 | 6 |
Fífurnar | 6 | 7 |
Riddarar | 6 | 6 |
Skytturnar | 6 | 6 |
Üllevål | 4 | 7 |
Svarta gengið | 4 | 8 |
Eins og áður sagði verða frestaðir leikir leiknir núna í vikunni þannig að öll liðin ljúka keppni á sama tíma þegar lokaumferðinn fer fram mánudagskvöldið 22. mars.
Dagskráin framundan:
Miðvikudagur 17. mars (á hefðbundnum tíma):
Skytturnar - Üllevål
Fimmtudagur 18. mars (fáum svellið kl. 21.00):
Riddarar - Mammútar
Svarta gengið - Üllevål
Lokaumferðin fer síðan fram mánudagskvöldið 22. mars en þá eigast við:
Braut 1: Riddarar - Üllevål
Braut 2: Garpar - Víkingar
Braut 4: Mammútar - Skytturnar
Braut 5: Svarta gengið - Fífurnar
Ísumsjón: Riddarar, Üllevål, Garpar, Víkingarþ
Eins og mótið hefur spilast og staðan er má bóka að spennan verður mikil í þeim leikjum sem eftir eru nú í vikunni og ekki síður í lokaumferðinni.