Íslandsmótið í krullu: Þrjú lið örugg í úrslit

Rennusteinarnir. Mynd: Halli
Rennusteinarnir. Mynd: Halli


Mammútar eru deildarmeistarar. Víkingar og Fálkar eru einnig með tryggt sæti í úrslitakeppninni.

Að áttundu og næstsíðustu umferð Íslandsmótsins lokinni er ljóst að Mammútar, Víkingar og Fálkar eiga öruggt sæti í úrslitakeppninni, en aðeins er óljóst hvert verður fjórða liðið í úrslitakeppninni. Þrjú lið eiga enn möguleika á því sæti.

Mammútar efstir
Mammútar hafa lokið sínum leikjum í deildarkeppninni, unnu sjö leiki og hafa tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Jafnvel þótt Víkingar vinni sinn leik og nái þeim að vinningum með sigri á Fífunum í lokaumferðinni munu Mammútar raðast ofar vegna sigurs í innbyrðis viðureign þessara liða. Þeir leika því gegn liðinu í 2. sæti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar (með val um síðasta stein). 


Víkingar í öðru sæti
Víkingar eru hins vegar öruggir með annað sætið og munu því leika gegn Mammútum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar (með val um lit). Jafnvel þótt Víkingar myndu tapa sínum leik í lokaumferðinni og Fálkar ná þeim að vinningum með sigri gegn Svartagenginu þá raðast Víkingar í 2. sætið þar sem þeir unnu Fálkana í innbyrðis viðureign þeirra.

Fálkar í þriðja sæti
Fálkar eru öruggir með þriðja sætið því jafnvel þótt þeir tapi sínum leik og annað hvort Fífurnar eða Rennusteinarnir, eða bæði þessi lið, vinni sína leiki og nái Fálkum að vinningum þá raðast Fálkar efstir af þessum þremur því þeir unnu bæði þessi lið.

Þrjú lið eiga möguleika á fjórða sætinu
Baráttan (og óvissan) er því einungis um fjórða sætið í úrslitum og gæti þurft aukaleiki til að skera úr um hvaða lið fær það sæti. Þrjú lið eiga enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina, Rennusteinarnir, Fífurnar og Ís-lendingar.

Fífurnar og Rennusteinarnir standa best að vígi, eru bæði með fjóra vinninga. Vinni annað þessara liða leik sinn í lokaumferðinni en hitt ekki þá fer það lið sem vinnur sinn leik upp í fimm vinninga og endar þar með eitt í fjórða sæti - og þarf því ekki aukaleik til að skera úr um sæti í úrslitum.

Ef bæði Fífurnar og Rennusteinarnir vinna sína leiki þarf aukaleik þessara liða um sæti í úrslitum.

Ef bæði Fífurnar og Rennusteinarnir tapa sínum leik í lokaumferðinni geta Ís-lendingar náð þeim að vinningum ef liðið vinnur sinn leik. Þá þyrfti tvo aukaleiki og raðast í þá eftir innbyrðis viðureignum þessara þriggja liða. Þar standa Rennusteinarnir best að vígi, síðan Fífurnar og síst Ís-lendingar. Fyrst myndu því Fífurnar (með val um síðasta stein) leika gegn Ís-lendingum og síðan sigurliðið úr þeirri viðureign gegn Rennusteinunum (sem hefðu þá val um síðasta stein). Ef Fífurnar, Rennusteinarnir og Ís-lendingar tapa öll sínum leikjum þarf einungis aukaleik á milli Fífanna og Rennusteinanna.

Staðan fyrir lokaumferðina:
1. Mammútar  7/1
2. Víkingar  6/1
3. Fálkar  5/2
4. Rennusteinarnir  4/3
   Fífurnar  4/3
6. Ís-lendingar  3/4
7. Ísherjar  2/5
8. Skytturnar  0/6
   Svartagengið  0/6 

Leikir 9. umferðar, mánudagskvöldið 19. mars:
Braut 2: Svartagengið - Fálkar
Braut 3: Rennusteinarnir - Skytturnar
Braut 4: Víkingar - Fífurnar
Braut 5: Ís-lendingar - Ísherjar
Ísumsjón: Fálkar, Skytturnar, Fífurnar, Ísherjar

Öll úrslit og leikjadagskrá (excel). 

Úrslitakeppnin hefur ekki verið dagsett nákvæmlega, en eftirfarandi eru mögulegir leikir í úrslitum:

Mögulegir aukaleikir: 
A) Ís-lendingar - Fífurnar   >   sigurlið - Rennusteinarnir   >   sigurlið í úrslitakeppnina
B) Fífurnar - Rennusteinarnir   >   sigurlið í úrslitakeppnina 

1. umferð úrslitakeppni:
Leikur 1: 1-2 Mammútar - Víkingar
Leikur 2: 3-4 Fálkar - Rennusteinarnir/Fífurnar/Ís-lendingar

2. umferð úrslitakeppni:
Leikur 3: Taplið úr leik 1 gegn sigurliði úr leik 2

3. umferð úrslitakeppni - leikið um verðlaun:
Gull: Sigurlið úr leik 1 gegn sigurliði úr leik 3
Brons: Taplið úr leik 2 gegn tapliði úr leik 3