Karfan er tóm.
Því miður hefur aðsóknin á Krulludaga verið minni en vonast var til, en þó höfum við fengið hressan hóp af fótboltastelpum úr Þór/KA, auk þess sem nokkrir áhugasamir krullumenn tóku góða æfingu í gær.
Svellið er orðið mjög fínt til krulluiðkunar og ástæða til að hvetja krullufólk, jafnt þá leikmenn sem hafa verið að spila í vetur og aðra sem ætla að bætast í hópinn núna á Ice Cup, til að kíkja við í Skautahöllinni og taka æfingu. Væntanlega verða nógu margir á svellinu núna um og upp úr hádeginu í dag (sunnudag) til að setja upp leik. Dagurinn í dag var ætlaður undir grunnskólamót í krullu - og það fer fram ef nógu margir mæta til að mynda tvö lið - en ef að líkum lætur verður samt sem áður nóg pláss á svellinu fram eftir degi og fram á kvöld. Hafið endilega samband eða kíkið við í höllinni.
Krullumót tryggingafélaganna
Í kvöld kl. 20 er á dagskránni krullumót tryggingafélaganna, en þar munu væntanlega reyna með sér lið frá TM, Sjóvá, VÍS og Verði. Við munum bjóða liðunum upp á aðstoð frá vönu krullufólki þannig að gott væri að fá nokkra inn í höll í kvöld til aðstoðar - og svo verða að sjálfsögðu lausar brautir einnig á meðan mótið fer fram þannig að við getum tekið æfingu eða leik á sama tíma ef nógu margir mæta.
Krullumót matvöruverslana
Á dagskrá er einnig að halda krullumót matvöruverslana - Samkeppni á hálum ís - en sú keppni (samkeppni) fór síðast fram 2006 og því löngu kominn tími til að auka samkeppni í þeim geira.
Leiðbeinandi á heimsmælikvarða
Camilla Jensen mætir til landsins í kvöld og verður tiltæk til þjálfunar og aðstoðar strax á morgun. Nú þegar hafa 2-3 lið sýnt því áhuga að fá einkatíma með Camillu og er ástæða til að hvetja fleiri til að nýta þetta tækifæri.
Kvennamót
Á þriðjudagskvöld (upphaflega áætlað bæði á mánudags- og þriðjudagskvöld) er á dagskrá kvennamót í krullu og er ekki nauðsynlegt fyrir konur sem vilja taka þátt að mynda lið fyrirfram. Þær sem áhuga hafa á að taka þátt geta mætt í Skautahöllina og við röðum saman í lið. Þær sem hafa áhuga á að taka þátt eru einnig hvattar til að mæta í Skautahöllina í opna tíma til að kynnast krullu og fá að prófa.
Dagskráin sem er á vef Krulludaga er alls ekki óbreytanleg - örugglega hægt að fá tíma fyrir hópa eða einstaklinga, leiðbeiningar og hjálp, nánast hvenær sem er. Hafið endilega samband og leitið upplýsinga ef ykkur langar til að prófa.
Ice Cup
Þrettán lið eru skráð til leiks á Ice Cup og er nú unnið að því að skrá það fjórtánda. Ef einhver les þessa frétt, er ekki komin(n) í lið en hefur áhuga á að vera með (jafnvel þótt viðkomandi geti ekki spilað alla dagana) þá hafið endilega samband (Halli, 824 2778). Nokkur af þeim liðum sem hafa skráð sig hafa ekki staðfest endanlega liðsskipan. Í pdf-skjali hér má sjá liðin sem eru skráð, liðsmenn hvers liðs og lituð með bláu þau lið sem hafa staðfest liðsskipan.