Mammútar Íslandsmeistarar

Mammútar Íslandsmeistarar í krullu 2012. Mynd: Ási
Mammútar Íslandsmeistarar í krullu 2012. Mynd: Ási


Mammútar kláruðu Íslandsmótið með stæl og sigruðu Fífurnar í úrslitaleiknum. Fálkar nældu í bronsverðlaunin.

Á Íslandsmótinu er keppt um svokallaðan Wallace-bikar, sem Sophie Wallace frá Granite Curling Club í Seattle gaf til Krulludeildarinnar í tilefni af opnun Skautahallarinnar árið 2001. Keppt hefur verið um þennan grip árlega frá árinu 2002 þannig að þetta er í ellefta skipti Íslandsmótið fer fram.

Mammútar með öll völd
Yfirburðir Mammúta Mammútar byrjuðu vel gegn Fífunum og skoruðu þrjú stig í fyrstu umferðinni og svo tvö í annarri og tvö í þriðju. Staðan orðin 7-0 og leikurinn ekki hálfnaður. Fífurnar voru greinilega ekki með lukkudísirnar með í för að þessu sinni því enn bættu Mammútar við forystuna, komust í 11-0 eftir fimm umferðir, og áður en sjöttu umferðinni lauk lögðu Fífurnar niður vopnin. Úrslitin: Mammútar - Fífurnar 11-0.

Spennandi leikur um bronsið
Leikurinn um bronsið var öllu jafnari og meira spennandi. Fálkar stálu stigi í fyrstu umferðinni, en Víkingar jöfnuðu, 1-1. Fálkar skoruðu svo aftur eitt stig og komust í 2-1, stálu svo einu og staðan 3-1 þegar leikurinn var hálfnaður. Víkingar minnkuðu muninn með laglegu lokaskoti í fimmtu umferðinni og þurfti reyndar mælingu til að skera úr um hvort liðið átti stein nær miðju. Víkingar komust svo yfir með því að skora þrjú stig í sjöttu umferðinni, staðan orðin 5-3 þeim í vil þegar tveimur umferðum var ólokið. Fálkar minnkuðu muninn í eitt stig fyrir lokaumferðina og náðu svo að stela tveimur stigum í lokin og sigra. Úrslit í bronsleiknum: Víkingar - Fálkar 5-6.

Mammútar deildar- og Íslandsmeistarar
Alls tóku níu lið þátt í Íslandsmótinu að þessu sinni, öll úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar. Mammútar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn, unnu alla leiki nema einn í deildarkeppninni. Þeir unnu síðan Víkinga í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og fóru beint í úrslitaleikinn þar sem þeir sigruðu Fífurnar.

Liðsmenn Mammúta eru: Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Sveinn H. Steingrímsson og Ragnar Jón Ragnarsson. Þetta er í fjórða sinn sem lið Mammúta verður Íslandsmeistari. Tveir núverandi liðsmenn hafa unnið titilinn með liðinu í öll fjögur skiptin, þeir Jón Ingi og Ólafur.

Myndirnar með þessari frétt tók hirðljósmyndari og heiðursfélagi SA, Ásgrímur Ágústsson. Fleiri myndir frá Ása má finna í myndaalbúmi.

Mammútar: Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason og Ragnar Jón Ragnarsson. Á myndina vantar Svein H. Steingrímsson. Mynd: Ásgrímur Ágústsson.