Karfan er tóm.
Aðeins ellefu manns mættu til keppni í þriðju umferð Nýársmótsins þannig að úr urðu þrjú þriggja manna lið og eitt tveggja manna. Eins og fyrr voru það Garpar og Mammútar sem náðu saman þriggja manna liði auk þess sem Fálkar spiluðu með tvo menn þannig að þau þrjú sem eftir voru röðuðust saman í lið.
Garparnir Hallgrímur Valsson, Gunnar H. Jóhannesson og Kristján Bjarnason léku gegn Fálkunum Davíð Valssyni og Rúnari Steingrímssyni. Fálkar höfðu yfirhöndina og náðu mest sex stiga forskoti fyrir lokaumferðina en þá skoruðu Garpar fimm stig og minnkuðu muninn í eitt stig, úrslitin 8-7 Fálkum í vil.
Þrír Mammútar, þeir Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason og Jón Ingi Sigurðsson öttu kappi við blandað lið sem skipað var þeim Heiðdísi B. Karlsdóttur, Svanfríði Sigurðardóttur og Sigfúsi Sigfússyni. Leikurinn var nokkuð jafn, Fífurnar náðu fyrst yfirhöndinni en Mammútar náðu að jafna fyrir lokaumferðina. Það dugði þeim þó ekki því andstæðingarnir skoruðu eitt stig í lokaumferðinni og sigruðu, 5-4.
Ólafur Hreinsson heldur efsta sætinu með meðaltal upp á 31 stig (2 leikir) en af þeim sem leikið hafa alla þrjá leikina er Davíð Valsson efstur með 27 stig. Mótið er nú hálfnað en rétt er að minna á að þegar upp er staðið eru það aðeins þeir leikmenn sem leika fjóra leiki eða fleiri sem eiga möguleika á að vinna mótið.
Fjórða umferðin fer fram mánudagskvöldið 17. janúar, fimmta umferðin verður miðvikudagskvöldið 19. janúar og sjötta og síðasta umferðin mánudagskvöldið 24. janúar. Í annarri og þriðju umferðinni var sá háttur hafður á að jafnt reyndir leikmenn sem nýliðar voru dregnir saman í lið og verður svo áfram. Það er því ástæða til að hvetja þær konur sem hafa mætt að undanförnu í átakinu "Á svellið stelpur!" til að mæta áfram í Skautahöllina og fá að taka þátt í skemmtilegri keppni.
Vakin er athygli á því að laugardagskvöldið 22. janúar verður krullukvöld í Skautahöllinni - haldið verður Þorramót sem verður opið öllum. Nánar um það síðar.