Karfan er tóm.
Skondin frétt birtist á vefmiðlinum Pressunni í dag þar sem sagt er frá því að á spjallvef nasista í Bandaríkjunum sé krullulandslið Íslands 2007 notað sem dæmi um þverskurð hins íslenska, lítt blandaða, hvíta kynstofns.
Í frétt Pressunnar (sem finna má á pressan.is hérna) segir meðal annars:
Stormfront, sem er tengslanet og samræðuvettvangur nýnasista á Netinu, boðar ómengaða kynþáttahyggju og þar er til að mynda spjallþráður um hvað íslenska þjóðin þykir lítt blönduð erlendu blóði. Í tilraun til að skýra mun á kynþáttum með sjónrænum hætti er hafin söfnun á ljósmyndum sem eiga að sýna einkenni þeirra, hvað sé líkt með þjóðum og hvað ólíkt.
Þarna eru myndir af allra þjóða kvikindum og lagt út af þeim með ýmsum hætti - og fulltrúar Íslands eru landsliðið í krullu, öðru nafni svellkatlaspili, árið 2007. Þetta eru Jón Hansen, Ólafur Hreinsson, Eiríkur Bóasson, Ágúst Hilmarsson og Kristján Þorkelsson.
Ólafur Hreinsson sagðist koma af fjöllum þegar Pressan sagði honum frá því í gærkvöld að hann væri í hópi þeirra sem nýnasistar teldu fulltrúa íslenskra karlmanna en sló nú samt á létta strengi:
"Maður hefði sjálfsagt verið ánægður með þetta - ef það væri bara í öðru samhengi."
Segir í færslu með myndinni á nasistasíðunni að þótt augljóst sé að iðkendur krullu séu fremur miðaldra en ungir gefi samanburður á myndum af landsliðum Evrópuþjóða í íþróttinni hugmynd um mismuninn sem er á þjóðunum allt frá norðvesturhluta Evrópu til suðausturhluta hennar.
Svo mörg voru þau orð. Eiginlega veit maður ekki hvernig bregðast skal við svona löguðu. Á maður að hlæja, gráta eða kvarta formlega við Stormfront-vefinn?