Nýtt upphaf hjá SA Víkingum

SA Víkingar hefja leik í Hertz-deild karla á morgun þegar liðið mætir Skautafélagi Reykjavíkur syðra í fyrsta leik Hertz deildarinnar þetta tímabilið. Íslandsmeistaralið Víkinga hefur tekið töluverðum breytingum frá síðasta vetri þar sem 10 leikmenn eru farnir úr liðinu.

Á móti kemur að Sigurður Freyr Þorsteinsson hefur dregið fram skautana eftir ársfrí og kemur til með að styrkja vörnina hjá Víkingum og Gunnar Arason verður einnig áfram með Víkingum en allt leit út fyrir að hann myndi einnig fara erlendis í ár. Í önnur skörð fylla svo leikmenn úr unglingastarfinu en ljóst er að lið Víkinga er þrátt fyrir allt gríðarsterkt og spennandi þó það sé ungt og einungis skipað uppöldnum leikmönnum en það hefur reynst vel síðastliðin ár. Þjálfararteymið samanstendur svo af þeim Sami Lehtinen aðalþjálfara liðsins og þeim Rúnai Frey Rúnarssyni og Clark McCormik.

Það ríkir því nokkur eftirvænting fyrir leik morgundagsins að sjá hvernig ungu liði Víkinga reiðir af en leikurinn hefst kl. 17:45 og verður sýndur beint á ÍHÍ TV.

Komnir:

Sigurður Freyr þorsteinsson – úr árs fríi

Farnir:

Halldór Ingi Skúlason – Hvidovre IK Danmörk

Unnar Hafberg Rúnarsson - Sollentuna HK J20 Svíþjóð

Alex Máni Sveinsson - Sollefteå HK J18 Svíþjóð

Arnar Kristjánsson - Sollefteå HK J18Svíþjóð

Uni Steinn Sigurðarson Göta/Traneberg J18 Svíþjóð

Axel Orongan – Skautafélag Reykjavíkur

Hinrik Halldórsson – Reykjavík

Egill Birgisson – Reykjavík

Kristján Árnason – spilar ekki í vetur

Einar Grant – spilar ekki í vetur  

Fyrsti heimaleikur Víkinga er svo næstu helgi en þá verður sannkölluð hokkíveisla á Akureyri þegar bæði SA Víkingar og kvennalið SA taka á móti Fjölnisliðum sama dag í Hertz-deildunum.