Þetta er Draumurinn.

Herborg í Rögle BK
Herborg í Rögle BK

Hvað er að frétta af stelpunum okkar sem hafa horfið á vit hokkí ævintýranna undanfarið ?
Við ætlum að reyna ná tali af þeim einni af annari á næstu vikum og komast að því hvernig gengur í hinum stóra íshokkíheimi. Herborg Rut Geirsdóttir er ein af stelpunum okkar, hún byrjaði skautaferilinn hjá okkur í SA, flutti ung að árum með fjölskyldunni til Noregs, æfði þar og í Svíþjóð, í Reykjavík, kom til okkar á heimaslóðirnar í fyrra en elti svo hokkídrauminn áfram til Svíþjóðar nú í haust.    

Herborg er hress að vanda, nýkomin af æfingu þar sem hún spilar nú með Rögle BK.                          

Rögle BK er í Ängelholm í Skåne sem er ekki svo langt frá Helsingborg eða Malmö. Ég bý rétt fyrir utan Engelholm í sveitinni sem er æðislegt, mig langaði frekar að búa aðeins fyrir utan bæinn og þar sem ég er á bíl frá klúbbnum er það ekkert mál og meira kósý en vera í blokk "centruminu" segir Herborg. 

Það eru svona tæplega þrjátíu þúsund manns sem búa hér og klúbburinn er mjög stór. Það er eitt A lið karla, kvennaliðið, U 20 og svo alveg niður úr en það eru þrjú svell á svæðinu svo það er nóg pláss fyrir alla. Það eru mjög margir sem vinna fyrir klúbbinn, það er fólk sem er með podcast um gengi félagsins, myndatökumenn, fólk sem vinnur við samfélagsmiðlana og annað fólk sem sér um aðra fréttamiðla. Við erum með sálfræðinga, sér sálfræðing fyrir kvenna liðið, annan fyrir U 20 og enn annan fyrir karlaliðið, það eru sjúkraþjálfarar og rosalega mikið af fólki í kringum klúbbinn. Það er tækjastjóri og ein kona sem sér t.d. bara um umhverfið í kringum okkar lið, svipuð vinna hjá þeim tveim en hún vinnur meira með heildina en hann með einstaklingana. Þjálfarinn okkar er bara með kvennaliðið, aðalþjálfarinn heitir Julius Bergkvist og svo erum við með aðstoðar þjálfara sem heitir Tim Brithén. Hann var landsliðsþjálfari á Íslandi í tvö ár svo það eru örugglega margir sem þekkja hann, þeir eru mjög góðir saman.                                                                                               

Herborg segir það fari aðeins eftir leikjum hvernig æfingunum er háttað. Við æfum ca fimm sinnum í viku og höfum alltaf afís með hverri ísæfingu, kannski einu sinni í viku sem við sleppum afís og höfum þá svona prehab sem er nokkurs konar rehab og virka þá sem fyrirbyggjandi æfingar gegn meiðslum. Mánudagar eru okkar frídagar en það kemur fyrir að við fáum líka frí á sunnudögum ef við erum t.d. ekki að spila. Þó timabilið sé byrjað minnka þeir ekki álagið frá sumaræfingum heldur vilja þeir halda okkur nákvæmlega þar, keyra æfingarnar áfram og halda okkur í góðu formi allt tímabilið. Þannig að við erum ekkert að breyta hlaupa- eða styrktaræfingum, við gerum allar æfingarnar áfram, sem er fínt en getur verið erfitt og er álag en bara fínt samt. Aðspurð segir Herborg upplifunina hjá Rögle BK, miðað við aðra staði sem hún hefur spilað á, mesta muninn og ástæðuna fyrir því hvers vegna hún vill vera þar sé hve klúbburinn hugsar vel um kvennaliðið. Við erum alltaf í fyrsta sæti, ef karla liðið, sem spilar í SHL og er þannig miklu stærra en við, fær eitthvað þá fáum við allt eins, alltaf hugsað um það. Við fáum allt það hokkídót sem við viljum eða vantar frítt en þetta snýst samt ekki um það að fá flotta hluti heldur meira það hvernig þeir horfa á okkur og virða okkur sem leikmenn. Á íslandi finnur maður ekki mikið fyrir því að karlar fái eitthvað meira en konur eða þannig, ég hef ekki upplifað það en ég hef náttúrulega bara spilað þar núna nýlega en ég veit þetta var aðeins öðruvísi áður þó maður finni það ekki í dag. En hér er þetta fyrst og fremst hvernig er hugsað um okkur og virðingin, hvernig t.d. allir hér horfa á okkur sem lið, stuðningsmenn og allt fólk sem kemur á leikina. Ég hef lesið mikið á samfélagsmiðlum um okkur og það er aldrei neikvætt komment, ekki eitt, alltaf jákvætt. Karlaliðið er mjög áhugasamt um okkur, þeir spjalla við okkur, mæta á leikina okkar sem maður er ekki vanur, þeir horfa á okkur sem einhverjar stjörnur. Ef ég þarf að láta skerpa skautana mína hér sný ég öðrum þeirra öfugt og á næstu æfingu er það bara búið og gert. Stelpurnar sem eru aldar upp hér í klúbbnum fatta þetta ekki en fyrir okkur sem erum utanaðkomandi t.d. frá Íslandi, Danmörku eða Spáni er þetta meiriháttar, við erum ekki vanar þessu. Allt í kringum klúbbinn er svona professional en á sama tíma er þetta samt eins og ein stór fjölskylda. Það er haldinn fundur með okkur í upphafi tímabilsins, allir heilsa og eru vinsamlegir hvort sem fólk þekkist eða ekki. Þetta þykir mér rosalega vænt um, þessi góða framkoma og maður finnur að maður er velkominn.

Herborg upplýsir okkur um liðsskipanina. Markmaðurinn okkar, Alba, er frá Spáni, við íslensku stelpurnar þekkjum hana vel höfum spilað á móti henni nokkrum sinnum, svo er ég frá Íslandi, ein frá Kanada, önnur frá Bandaríkjunum, þrjár frá Danmörku, ein frá Noregi og ein frá Slóveníu þannig að þetta er svona fiftí fiftí heimamenn og erlendir. Oft í svona liðum verða þetta útlendingarnir og svo Svíarnir en hér blöndumst við vel saman svo maður finnur ekki fyrir því.

Herborg segir að liðið sé töluvert ungt en það sé einmitt ástæðan fyrir því að þeir stofnuðu liðið, þeir voru með svo ungar stelpur sem þurftu að fara í burtu frá klúbbnum til að geta haldið áfram að spila. Þær eru svona 15 -16 ára þannig að það eru nokkrar á þeim aldri, elstu tvær eru 26 ára og svo erum við hinar þarna á milli. Ég fann helst fyrir því að það var farið að kalla mig senior player, ha ég, ég er ekki senior player, bara 22 ! En svona er það en það eru alveg nokkrar yngri og nokkrar eldri svo þetta jafnast vel út.

Þegar berst í tal mismunur á milli þeirra staða eða liða sem Herborg hefur spilað með í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi segir hún mesti munurinn sé milli Svíþjóðar og Íslands. Noregur er svo þarna á milli og það varðar allt; aðbúnað, level, þjálfun, umhverfi osfrv. Það góða við Ísland, þegar ég spilaði þar var að ég fékk mikið sjálfstraust sem mig vantaði. Ég hef verið að spila með mjög góðum liðum úti og þá þarf maður að berjast mikið fyrir sínum stað í liðinu. Ekki það að ég hafi ekki þurft að berjast á æfingunum á Íslandi en þar var ég öruggari með mig, ég gat leyft sjálfri mér halda pökknum og þora að taka skot sem mig vantaði mikið svo ég er mjög glöð með að hafa farið til Íslands.

Hér í Svíþjóð er þetta miklu meira andlega erfitt finnst mér og auðvitað spilar inn í að maður er ekki með mömmu og pabba hjá sér en ég var svo sem ekki með þau heldur þegar ég var á Íslandi. Það eru mjög háar kröfur hér og þetta er ógeðslega erfitt, oft talar fólk um Svíþjóð að það sé eitthvað meiriháttar sem það er í sjálfu sér. Alveg eins og það sem ég er búin að segja hérna um klúbbinn, bara jákvæðir hlutir en þetta er samt svo erfitt og maður þarf að þarf að geta speglað sjálfan sig rosalega vel til að geta verið hér. Maður missir auðveldlega sjálfstraustið, ert kannski sett á bekkinn í leik jafnvel þú hafir átt geggjaða viku.

 Á íslandi var það meira svona ”hey af hverju er ég á bekknum” og þú fékkst einhver svör, vegna þessa eða hins en hér er þetta bara “sestu niður” og engar spurningar eða spjall. Þannig þarf maður berjast svo mikið fyrir plássi og oft finnst manni þetta ósanngjarnt og erfitt, maður er svo einn í þessu því sambandið milli þjálfarans og leikmannsins er öðruvísi heldur en heima, það er ekki þetta spjall sem á sér auðveldlegar stað þar. Þetta getur verið mjög þungt og einmanalegt og allir geta lent í því að verða aðeins einangraðir frá hinum því þú færð áskorun sem þú hefur aldrei fengið áður og meira segja núna þó ég sé 22 ára er ég enn að lenda á veggjum í hverri viku. Þannig er ég virkilega alltaf að berjast fyrir því að vera hér og eiga sæti. Þó ég sé búin að standa mig frábærlega er mér allt í einu hent í fjórðu línu þar sem við fáum kannski ekki einu sinni að spila. Það er ógeðslega leiðinlegt en á sama tíma er maður líka þakklátur fyrir það því þannig lærir maður rosalega mikið á sjálfan sig og hvernig maður er.

Herborgu finnst mikið tabú gagnvart íslenskum leikmönnum sem fara til Svíþjóðar og fara heim um jól og ekki aftur út. Hún segist skilja það mjög vel því það séu alls ekki allir tilbúnir í þetta, henni finnst það frekar flott þegar leikmenn átta sig á því sjálfir að þeir séu ekki tilbúnir í þetta að svo stöddu, það sé engin skömm að því. Fólk er alltaf tilbúið að slúðra um það, þessi eða hinn hafi ekki verið nógu góður, komið heim osfrv. Þetta sé mjög erfitt og það eigi ekki að hlusta á slíkt, fólk geri sér enga grein fyrir muninum. Á Íslandi er umhverfið allt öðruvísi, það er svolítið þannig að pabbi þessa þekkir mann og einhverjir spottar sem kannski er hægt að kippa í, þannig sé það ekki úti. Í Svíþjóð lítur þetta allt saman skínandi vel út utanfrá en er mjög krefjandi þegar maður er kominn inn, vissulega margar dyr sem geta opnast og ég er mjög þakklát að fá að vera hér.

Er eitthvað sem hefur komið á óvart í þessari dvöl hvort varðandi kúltúrinn eða hokkíið ? Herborg segir það vera það sem hún er búin að minnast á varðandi hokkíið. Ég er orðin 22 ára og finnst ég kunna þetta allt en á svo alveg helling ólært. Þetta er aftur sama baráttan og síðast, aftur að berjast við 15 ára stelpur sem eru betri en ég. Það byggir samt eldmóð í manni, á Íslandi var ég komin í þægilega stöðu sem er auðvitað gott að vera í en samt vill ég frekar áskorunina til að ýta mér áfram og verða betri.

Talið berst að keppnisferðum. Við keppum einu sinni til tvisvar um helgar, þrisvar ef maður vill spila með junior strákunum. Ef það er heimaleikur förum við á æfingu um morguninn og borðum hádegismat saman fyrir leikinn ef það er útileikur þá borðum við saman áður en við förum af stað. Það eru bara leikir um helgar sem er mjög nice þannig að maður er ekki að koma heim kl 3 að nóttu eða álíka og þurfa svo í vinnu daginn sem er mjög gott.

Hið venjubundna lífi, utan við æfingar og keppni. Ég er er á öðru ári í sálfræði í fjarnámi við HA svo ég þarf líka að læra, helsta vesenið við fjarnámið að finna próftökustað. Ef ég er ekki að læra og hafa það huggulegt í sveitinni eru það vinkonur úr liðinu eða vinnan, ég er einmitt að byrja í nýrri vinnu þar sem vantaði norskumælandi fulltrúa hjá fyrirtæki í markaðssetningu, mjög spennandi vinna.

Það sem er framundan er auðvitað að berjast fyrir plássinu mínu í liðinu hér og gera góða hluti  fyrir landsliðið, það eru náttúrulegar ungar stelpur sem eru ógeðslega góðar að koma upp svo maður þarf að halda áfram. Ég vona að ég geti unnið á Íslandi á sumrin og vonandi fæ ég að halda áfram að vera hér ef allt gengur upp af því mér finnst þetta frábær klúbbur, ef ég fæ spilatímann sem ég ætla að vinna fyrir væri það bara æðislegt, þetta er draumurinn.

Við óskum Herborgu góðs gengis á ísnum sem utan hans en fyrir áhugasama fylgja hér slóðir á heimasíðu og samfélagsmiðla Rögle BK:

https://www.roglebk.se/

https://www.instagram.com/roglebk/

https://www.facebook.com/roglebk/

https://twitter.com/roglebk

 

Elísabet Ásgríms