Bjarnarmenn sterkari

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (20.11.2012)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (20.11.2012)


Jötnar og Björninn mættust í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí í gærkvöldi. Björninn vann öruggan sigur, 1-7. 

Leikur Jötna og Bjarnarins var ekki sá best sem sést hefur á svellinu og líklega nokkrar skýringar á því. Eins og fram hefur komið æfir karlalandsliðið á Akureyri núna um helgina. Leikmenn úr báðum liðum voru því á fullu á landsliðsæfingu á föstudagskvöld og aftur að morgni laugardags - þannig að einhver þreyta hefur væntanlega sagt til sín í leiknum. Gaman væri reyndar að vita hvort landsliðsmenn í öðrum íþróttagreinum væru til í að vera á landsliðsæfingum á föstudagskvöldi, laugardagsmorgni og sunnudagsmorgni - og spila að auki einn deildarleik inn á milli. Gæti líklega gengið upp í skák eða bridge. Hokkímenn eru harðir og að auki þarf bæði að nýta vel tímann sem fæst í skautahöllunum, sem og að spara ferðalögin.

Bjarnarmenn sterkari
Bjarnarmenn keyrðu af krafti á heimaliðið í upphafi leiks og skoruðu tvö mörk á fyrstu fimm mínútunum, fyrst Úlfur Jón Andrésson og síðan Hjörtur Geir Björnsson. Jötnar náðu að minnka muninn í 1-2 eftir tæplega níu mínútna leik með marki Helga Gunnlaugssonar, og náðu síðan að hanga á því út leikhlutan og fram í þann næsta.

Um miðjan annan leikhluta varð nokkurt hlé á leiknum þegar Daniel Kolar meiddist, í fyrstu virtist um slæm meiðsli að ræða og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Að því er við best vitum er Kolar illa tognaður á hné, en ekkert brotnaði né slitnaði í þessu óhappi.

Öruggur sigur
Bjarnarmenn bættu síðan við þriðja markinu snemma í öðrum leikhluta þegar Arnar Bragi Ingason skoraði. Jötnar virtust ekki líklegir til að komast aftur inn í leikinn og gestirnir bættu í forystuna í öðrum leikhluta með mörkum frá Brynjari Bergmann og Trausta Bergmann. Enn bættust við tvö mörk í fyrri hluta lokaleikhlutans, en þá skoruðu Ólafur Björnsson og Birkir Árnason.

Úrslit: Jötnar - Björninn 1-7 (1-2, 0-3, 0-2).

Mörk/stoðsendingar
Jötnar - mörk/stoðsendingar
Helgi Gunnlaugsson 1/0
Lars Foder 0/1
Refsingar: 12 mínútur
Varin skot: 25 (11+5+9)

Björninn - mörk/stoðsendingar
Birkir Árnason 1/3
Hjörtur Geir Björnsson 1/1
Brynjar Bergmann 1/1
Ólafur Björnsson 1/1
Matthías Skjöldur Sigurðsson 0/2
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Arnar Bragi Ingason 1/0
Trausti Bergmann 1/0
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 13 (7+3+3) 

Eftir leikinn eru Bjarnarmenn með afgerandi forystu í deildinni, eru komnir í 20 stig eftir sjö leiki. Næstu leikir SA-liðanna í mfl. karla eru 30. nóvember og 1. desember, en þá fara bæði liðin okkar í Laugardalinn og mæta Fálkum, fyrst Víkingar kl. 20.15 föstudagskvöldið 30. nóvember og síðan Jötnar kl. 18.30 laugardaginn 1. desember.