Karfan er tóm.
Kvennalið SA á enn erfiða leið fyrir höndum til að verja deildarmeistaratitilinn og tryggja sér oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni gegn Birninum, þrátt fyrir 16 marka sigur á SR í kvöld. Þurfa átta marka sigur gegn Birninum í lokaleik deildarinnar.
Lið SA vann stórsigur á SR í mfl. kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí í kvöld. Úrslit: SA-SR 16-0 (4-0, 6-0, 6-0). Það þarf ekki að skrifa margt um hokkíleik sem vinnst með 16 marka mun. Tölurnar segja það sem segja þarf; SA með 59 skot á mark, en SR sjö. Gang leiksins má sjá í atvikalýsingu frá leiknum.
Nú er aðeins einn leikur eftir í deildarkeppninni, viðureign SA og Bjarnarins sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri laugardagskvöldið 1. mars. Þann leik verður SA að vinna til að ná Birninum að stigum. Sigri SA enda bæði liðin með 27 stig og jafnmarga sigra í innbyrðis viðureignum liðanna. Markatala er hins vegar Birninum mjög í hag, markamunurinn er 15 mörkum hagstæðari hjá Birninum en SA. Það þýðir að SA þyrfti að vinna Björninn með 8 marka mun til að komast í efsta sætið og ná að verja deildarmeistaratitilinn og um leið að tryggja sér oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni.
Slíkur sigur verður líklega að teljast langsóttur miðað við viðureignir liðanna til þessa á tímabilinu, en alls ekki útilokaður. Það er því full ástæða til að hvetja hokkíáhugafólk til að fjölmenna á leik SA og Bjarnarins næstkomandi laugardag.
Mörk/stoðsendingar
SA
Birna Baldursdóttir 5/0
Guðrún Marín Viðarsdóttir 3/0
Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1
Katrín Ryan 2/0
Thelma María Guðmundsdóttir 2/0
Díana Mjöll Björgvinsdóttir 1/1
Marta Magnúsdóttir 1/0
Berglind Leifsdóttir 0/2
Sunna Björgvinsdóttir 0/2
Guðrún Kristín Blöndal 0/1
Kristín Björg Jónsdóttir 0/1
Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1
Refsimínútur: 10
Varin skot: 7
SR
Refsimínútur: 2
Varin skot: 43