Guðrún Marín til Finnlands

Guðrún í leik með Ynjum í október 2011. Mynd: EFP
Guðrún í leik með Ynjum í október 2011. Mynd: EFP


Ynjur sjá á eftir sterkum leikmanni úr sínum röðum til Finnlands, en þar ætlar Guðrún Marín Viðarsdóttir að reyna fyrir sér með liði Rauma í næstefstu deild í Finnlandi. Stefnan er sett á efstu deildina.

Núna á föstudaginn heldur Guðrún Marín Viðarsdóttir, leikmaður Ynja, til Finnlands þar sem hún ætlar að freista gæfunnar með liði Rauma í 1. deildinni (næstefstu) í íshokkí. Liðið er á toppi deildarinnar og ætlar sér upp í efstu deild. Ásamt Guðrúnu er liðið að fá til sín tvo erlenda leikmenn, frá Kanada og Slóvakíu.

Guðrún er fædd 1993 og hefur æft og spilað íshokkí með SA, en þetta er fimmta keppnistímabil hennar með félaginu. Hún hefur spilað með íslenska landsliðinu síðastliðin tvö ár, tók þátt í HM í Reykjavík 2011 og Suður-Kóreu 2012. 

Utanför Guðrúnar hefur verið í bígerð í nokkurn tíma en endanlega var samið um utanför hennar í gærmorgun. Guðrún sagðist í samtali við heimasíðuna vera spennt fyrir þessu verkefni, en var þó hógvær og benti á að ekki væri beinlínis um atvinnumennsku að ræða.

Til að byrja með verður Guðrún í Finnlandi fram að jólum, en framhaldið ræðst síðan væntanlega af frammistöðu hennar og því hvernig henni líkar. Guðrún stundar nám við Menntaskólann á Akureyri og mun halda því áfram í fjarnámi á milli þess sem hún einbeitir sér að hokkíinu.

Lið Ynja á að sjálfsögðu eftir að sakna Guðrúnar, en hún hefur leikið sinn síðasta leik með liðinu í bili og verður farin utan fyrir leik Ynja gegn Birninum á laugardag.

Rauma er bær syðst á vesturströnd Finnlands með rétt um 40 þúsund íbúa og er vinabær Álftaness.

Guðrún Marín Viðarsdóttir í landsliðsbúningi Íslands. Mynd: Elvar Freyr Pálsson.