Karfan er tóm.
Víkingar fóru hægt af stað í leik sínum gegn Birninum sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, en þegar mulningsvélin vaknaði var Björninn unninn. Víkingar náðu tveggja stiga forskoti á Björninn á toppi deildarinnar.
Ingvar Þór Jónsson lék ekki með Víkingum í þessum leik vegna meiðsla og munar svo sannarlega um minna. Það var þó fremur sóknarbroddurinn sem vantaði í fyrsta leikhluta, örfá skot á mark frá báðum liðum, og aðeins eitt sem rataði inn og það var í markið hjá Víkingum.
Björninn skoraði fyrsta markið um miðjan fyrsta leikhluta. Þeir voru þá einum fleiri og aðeins fjórar sekúndur eftir af refsitímanum þegar þeir náðu að koma pökknum í markið.
Markalaust þrátt fyrir refsingar
Það sem bar helst til tíðinda í öðrum leikhluta voru varin skot og refsingar því hvorugu liðinu tókst að skora. Tvisvar spiluðu Víkingar fimm á móti þremur, fyrst í 26 sekúndur og síðan reyndar í aðeins fimm sekúndur, en náðu ekki að nýta sér það tækifæri. Gestirnir enn einu marki yfir, en þó lifnaði nokkuð yfir sóknarleik beggja liða og fleiri góð færi en í fyrsta leikhlutanum.
Mulningsvélin vaknaði
Þriðji leikhluti var innan við hálfrar mínútu gamall þegar Jóhann Már Leifsson náði loksins að skora fyrsta mark Víkinga. Við það kviknaði neisti í liðinu og áður en yfir lauk höfðu Víkingar bætt við tveimur mörkum án þess að Bjarnarmönnum tækist að svara. Andri Freyr Sverrisson skoraði annað markið þegar Víkingar voru tveimur fleiri og um átta mínútur eftir af leiknum. Undir lokin innsiglaði Ingþór Árnason sigurinn með þriðja marki Víkinga. Úrslitin: Víkingar – Björninn 3-1 (0-1, 0-0, 3-0).
Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Ingþór Árnason 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Ben DiMarco 0/2
Björn Már Jakobsson 0/2
Refsimínútur: 10
Varin skot: 23
Björninn
Róbert Freyr Pálsson 1/0
Lars Foder 0/1
Bóas Gunnarsson 0/1
Refsimínútur: 18
Varin skot: 28
Með sigrinum náðu Víkingar efsta sætinu af Birninum. Víkingar hafa nú 34 stig eftir 13 leiki, tveimur stigum meira en Björninn. Liðin eiga eftir að mætast einu sinni á Akureyri og einu sinni í Egilshöllinni, og bæði lið eiga eftir að mæta SR einu sinni. Því má segja að sigurinn í kvöld hafi verið fyrsta skrefið í endasprettinum og stórt skref í átt að deildarmeistaratitlinum. Baráttan framundan verður spennandi og auðvitað ekkert hægt að bóka fyrirfram. En óneitanlega geta menn andað aðeins léttar eftir sigurinn í kvöld.
Næsti leikur Víkinga verður gegn Birninum, en þeir koma aftur í heimsókn norður laugardaginn 1. mars. Næsti heimaleikur í Skautahöllinni á Akureyri er viðureign SA og SR í meistaraflokki kvenna um komandi helgi. Sá leikur verður á laugardagskvöld kl. 19.00, en sömu helgi fer fram Barnamót SA í 5., 6. og 7. flokki. Næsti heimaleikur Jötna, og jafnframt síðasti leikur þeirra í deildinni í vetur, verður gegn Fálkum þriðjudagskvöldið 27. febrúar.
Elvar Freyr Pálsson var einn af þeim sem myndaði á leiknum í kvöld. Ef smellt er á myndina opnast albúm með fleiri myndum frá Elvari.