Sigur á Iceland Ice Hockey Cup

Rauða liðið. Myndir: Ásta Jóhanna Þorláksdóttir.
Rauða liðið. Myndir: Ásta Jóhanna Þorláksdóttir.


Rauða liðið - að meirihluta skipað ungum leikmönnum SA - sigraði í A-elítu deild Iceland Ice Hockey Cup í Egilshöllinni um helgina.

Fjögur lið tóku þátt í A-elítu deildinni, tvö íslensk og tvö kanadísk. Íslensku liðin voru annars vegar skipuð leikmönnum landsliðsins 2011-2012 (Svarta liðið) og hins vegar að mesu ungum og efnilegum leikmönnum sem bíða þess að fá tækifæri með landsliðinu (Rauða liðið). 

Rauða liðið vann tvo leiki í riðlinum, en tapaði einum. Þær sigruðu Svarta liðið og annað af þeim kanadísku. Svarta liðið vann annað kanadíska liðið, en tapaði tveimur leikjum. Úrslit leikja hafa eitthvað skolast til á úrslitasíðunni á vef Bjarnarins, en það verður vonandi leiðrétt. 

Tvö efstu liðin í deildinni léku síðan úrslitaleik í gærkvöld. Þar mætti Rauða liðið kanadíska liðinu Ice-O-topes, sem þær höfðu tapað fyrir deginum áður. Rauða liðið sigraði í þeim leik, 1-0, og er því sigurvegari Iceland Ice Hockey Cup 2012.

Þessi sigur þeirra á mótinu er mjög glæsilegur og afar ánægjulegt fyrir framtíð landsliðsins að svona öflugur hópur skuli vera til staðar sem framtíðarleikmenn landsliðsins. 

Í Rauða liðinu voru 11 leikmenn úr SA, þær Diljá Sif Björgvinsdóttir, Díana Mjöll Björgvinsdóttir, Elise Marie Väljaots, Guðrún Marín Viðarsdóttir, Kristín Björg Jónsdóttir, Leena-Kaisa Viitanen, Silja Rún Gunnlaugsdóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir, Thelma María Guðmundsdóttir og Þorbjörg Eva Geirsdóttir. Guðlaug Þorsteinsdóttir spilaði í markinu fyrir bæði íslensku liðin, nema hvað Rauða liðið fékk kanadískan markvörð að láni í einum leiknum. Sarah Smiley spilaði reyndar einnig tvo leiki með Rauða liðinu, en hún var eins konar "flakkari" og spilaði einnig leiki með kanadísku liðunum.

Valkyrjur í vígahug
Valkyrjur tóku einnig vel á því um helgina, en þurftu þó að játa sig sigraða í öllum leikjum sínum. Þær mættu tveimur kanadískum liðum í riðlakeppninni og töpuðu 0-8 fyrir Lightweights og 0-6 fyrir FUNgals. Síðan var úrslitakeppni á milli allra liðanna í B- og C-deild. Þar léku Valkyrjur fyrst gegn liði SR og endaði sá leikur 6-2, SR í vil. Síðan mættu þær Lightweights aftur og töpuðu 6-1 í það skiptið.

Myndirnar með þessari frétt tók Ásta Jóhanna Þorláksdóttir, en í Rauða liðinu léku þrjár dætur hennar, þær Díana Mjöll, Diljá Sif og Silvía Rán, sem hampa bikarnum saman á neðri myndinni. 

Heimasíðan óskar eftir því að fá ljósmyndir til birtingar - velviljaðir ljósmyndarar sem eru tilbúnir að deila verkum sínum hér á heimasíðunni eru beðnir um að hafa samband við fréttaritara í netfanginu haring@simnet.is. Væntanlega verður fréttaritari staddur á leik Ynja og Ásynja, sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri annað kvöld (9. okt.) og getur þá tekið við myndum.