Sigur gegn Belgíu í fyrsta leik

Birna skoraði bæði mörk Íslands. Mynd: EFP
Birna skoraði bæði mörk Íslands. Mynd: EFP


Birna Baldursdóttir skoraði bæði mörk Íslands. Markvörður Íslands varði 50 skot.

Stelpurnar okkar hófu keppni í 2. deild B með sigri á þeim belgísku, 2-1. Í umfjöllun á heimasíðu ÍHÍ kemur fram að þær belgísku hafi sótt grimmt, en varnarleikur Íslendinga og markvarsla hafi gert gæfumuninn. Þær belgísku áttu fleiri sóknir en sóknir íslenska liðsins voru hættulegri. Karitas hafði nóg að gera í markinu, varði í heildina 50 skot, þar á meðal eitt víti í þriðja leikhluta.

Belgía komst yfir strax á fyrstu mínútu annars leikhluta, en Birna Baldursdóttir jafnaði í lok annars leikhluta, eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur og Söruh Smiley. Birna skoraði síðan sitt annað mark og kom Íslendingum yfir þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Frábær sigur í fyrsta leik. 

Annar leikur liðsins hófst kl. 11.00 í dag (sunnudag) og leika stelpurnar okkar gegn gestgjöfunum í Suður-Kóreu, sem sigruðu Suður-Afríku 10-2 í fyrsta leik sínum á mótinu. Fylgjast má með gangi leiksins beint á netinu - sjá hér. Upplýsingar um mótið í heild má finna hér.

Í landsliði Íslands að þessu sinni eru hvorki fleiri né færri en 12 leikmenn frá SA: Guðrún Marín Viðarsdóttir, Eva Karvelsdóttir, Arndís Sigurðardóttir, Sarah Smiley, Silja Gunnlaugsdóttir, Guðrún Blöndal, Linda Brá Sveinsdóttir, Jónína Guðbjartsdóttir, Bergþóra Bergþórsdóttir, Anna Sonja Ágústsdóttir, Birna Baldursdóttir, Guðlaug Þorsteinsdóttir.