Sögulegt Íslandsmót í karlaflokki

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (13.10.2012)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (13.10.2012)


Yfirstandandi Íslandsmót í meistaraflokki karla í íshokkí er sögulegt mót að tvennu leyti. Aldrei hafa jafn mörg lið tekið þátt í Íslandsmótinu og að auki er nú í fyrsta skipti keppt í tveimur deildum, sem þó eru að hluta sameiginlegar. Hér eru útskýringar á keppnisfyrirkomulaginu í deildunum og á milli deildanna og á reglum um notkun leikmanna á milli liða.


Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að efla íshokkí hér á landi, bæði í karla- og kvennaflokki, með fjölgun iðkenda og fjölgun liða. Eitt af því sem gert hefur verið í þessu sambandi er að leyfa notkun leikmanna með tveimur liðum frá sama félagi eftir ákveðnum reglum. “Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst að auka fjölbreytni og fjölga leikjum, sérstaklega fyrir unga og efnilega landsliðsmenn. Einnig er með þessu móti boðið uppá hokkí fyrir þá sem ekki geta æft stíft en telja sig ekki eiga heima í Old-boys alveg strax,” sagði Ingvar Þór Jónsson aðspurður um keppnisfyrirkomulagið. Ingvar er þjálfari og leikmaður SA, en hann á einnig sæti í stjórn ÍHÍ. „Það má einnig segja að fyrirkomulagið gefi ungum leikmönnum smjörþefinn af því sem koma skal í efri deildinni.“

A- og B-lið frá hverju félagi
Tvö undanfarin ár hefur SA sent tvö lið til keppni í mfl. karla á Íslandsmótinu, Víkinga og Jötna. Í fyrra bættu Bjarnarmenn við öðru liði sínu, Húnum, en SR-ingar hafa þangað til nú sent eitt lið, en þeir hafa nú bætt við öðru liði sínu, Fálkum. Undanfarin ár hefur verið keppt í 2. flokki karla, en sú keppni leggst nú af og í staðinn kemur ný deild í meistaraflokki, neðri deild eða B-liða keppni.  

Skautafélögin þrjú, SA, SR og Björninn, senda öll tvö lið til keppni í meistaraflokki karla í vetur. SA-liðin heita Víkingar og Jötnar, Bjarnarliðin heita Björninn og Húnar og SR-ingar keppa sem SR og Fálkar. 

Jötnar, Húnar og Fálkar eru þannig eiginleg B-lið félaganna þriggja.

Samnýting leikmanna
Félögin geta síðan nýtt sömu leikmenn að hluta í bæði liðin sín eftir ákveðnum reglum. Það má eiginlega orða það þannig að allir leikmenn SA séu Jötnar þangað til þeir leika með Víkingum. Markverðir og leikmenn 18 ára og yngri geta flakkað frjálst á milli liðanna og í hverjum leik mega Jötnar síðan fá lánaða sex aðra leikmenn frá Víkingum. Sama gildir að sjálfsögðu um samnýtingu Bjarnarmanna og Húna annars vegar og SR-inga og Fálka hins vegar. 

Tveggja deilda keppni
Að hluta til leika öll sex liðin saman – án þess þó að A- og B-lið hvers félags mætist – en meginkeppnin er þó deildaskipt þannig að Víkingar, Björninn og SR leika í efri deildinni og Jötnar, Fálkar og Húnar í neðri deildinni. Samtals leikur hvert lið 16 deildarleiki í vetur. 

Að loknum þessum tveimur deildakeppnum verða krýndir deildarmeistarar í hvorri deild og síðan fer fram hefðbundin úrslitakeppni, tvö efstu liðin í efri deildinni (Víkingar, Björninn, SR) leika fimm leikja seríu um Íslandsmeistaratitilinn og tvö efstu liðin í neðri deildinni (Jötnar, Húnar, Fálkar) leika þriggja leikja séríu um neðrideildartitilinn.

Staðan
Ef litið er á stöðuna í deildakeppninni eins og hún er núna með hliðsjón af skiptingu í það sem kalla mætti efri deild og neðri deild er útlit fyrir að bæði lið SA og bæði lið Bjarnarins leiki til úrslita um titlana. SR hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er vetri, en auðvitað ber að líta á að það eru mörg stig eftir í pottinum. 

Efri deild

Lið Leikir  Stig  
Björninn   8 22
Víkingar 7 15
SR 8 3

 

Neðri deild

Lið Leikir   Stig   
Húnar   7 14
Jötnar      8 12
Fálkar 8 3


Á vef ÍHÍ má finna ítarlegri tölfræði upplýsingar, m.a. stöðuna í deildinni og úrslit allra leikja en á þeirri síðu eru að auki tenglar á nánari tölfræði, svo sem markaskorun, stoðsendingar og fleira.