Sögulegur hokkíleikur í Laugardalnum

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (12.02.2013)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (12.02.2013)


Þegar SA mætti liði SR í mfl. kvenna í Skautahöllinni í Laugardal á laugardaginn var það í fyrsta skipti í hokkísögu Íslands sem allir þátttakendur í sama leik eru konur - leikmenn, þjálfarar, liðsstjórar og dómarar. Fimm leikmenn SA léku sinn fyrsta meistaraflokksleik. Úrslitin: SR - SA 5-7.

Við sögðum fyrir helgina frá breyttu fyrirkomulagi á Ísladnsmóti kvenna þetta árið. Sarah Smiley upplýsti fréttaritara um leikinn á laugardaginn og ýmislegt í tengslum við hann. Því miður höfum við þó ekki leikskýrsluna við hendina (ekki heldur á vefnum) og því ekki upplýsingar um markaskorun, stoðsendingar og aðra tölfræði úr leiknum.

Leikur SA gegn SR um helgina var sá fyrsti hjá SA-liðinu með eftir hinu nýja fyrirkomulagi. Þrjú lið taka nú þátt í mótinu, SA, SR og Björninn, en fjórða liðið - æfingahópur kvennalandsliðsins - er skipað toppleikmönnum í íþróttinni hér á landi og mun taka þátt í sérstökum mótum sem sett verða upp með erlendum liðum og spila leiki við lið úr 3. flokki. Liðin þrjú sem taka þátt í Íslandsmótinu geta fengið lánaða fjóra leikmenn úr æfingahópi landsliðsins hverju sinni. Þessi tilraun er gerð í vetur til að reyna að bæta frammistöðu kvennalandsliðsins á Heimsmeistaramótinu, sem haldið verður í Reykjavík dagana 24.-30. mars 2014, en einnig til að þróa Íslandsmótið og bjóða upp á jafnari og meira spennandi leiki en verið hafa undanfarin ár.

Jafn og spennandi leikur
Leikur SR og SA var jafn og spennandi - en til samanburðar má geta þess að síðasti leikur Ynja gegn SR endaði 19-0 og síðasti leikur Ásynja gegn SR endaði 10-0. 

Fimm leikmenn SA léku á laugardaginn sinn fyrsta leik með meistaraflokki: Ragnhildur Helga Kjartansdóttir, sem jafnframt skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki, Teresa Regína Snorradóttir, Guðrún Linda Sigurðardóttir, Guðrún Katrín Gunnarsdóttir og Berglind Rós Leifsdóttir. 

Systurnar Diljá Sif Björgvinsdóttir og Silvía Rán Björgvinsdóttir, sem báðar eru í æfingahópi landsliðsins, spiluðu með SA og áttu sinn þátt í markaskorun og að halda uppi hröðu tempói í leiknum. Heiðrún Ósk Steindórsdóttir varði stórkostlega í marki SA og átti sinn þátt í að liðið hélt 7-5 forystu síðustu tíu mínútur leiksins. 

Hokkíáhugafólk má því eiga von á spennandi vetri framundan. Gaman verður að sjá hvernig leikmenn í æfingahópi landsliðsins ná að bæta sig sem landslið og hvernig nýir leikmenn í kvennadeildinni ná að þróa sinn leik.