Karfan er tóm.
Langar þig að koma og prófa íshokkí? Sunnudaginn 14. október kl. 14-16 verður stelpuhokkídagur í Skautahöllinni á
Akureyri.
Hinn alþjóðlegi stelpuhokkídagur verður haldinn um allan heim sunnudaginn 14. október næstkomandi. Hann verður haldinn á tveimur stöðum á Íslandi, í Skautahöllinni á Akureyri og í Skautahöllinni í Laugardal.
Öllum stelpum er boðið að koma og prófa íshokkí frítt. Kylfur, hjálmar og skautar eru til reiðu á staðnum. Landsliðskonur í íshokkí verða einnig á svellinu og hægt er að fá mynd af sér með þeim.
Ef þú ert hugrökk og orkumikil stelpa, komdu þá á sunnudaginn og prófaðu íshokkí! Eða ef þú þekkir stelpu sem langar að prófa endilega bjóddu henni á stelpuhokkídag.
Opið verður fyrir almenning á skautasvellið kl. 13-17 á sunnudaginn eins og venjulega, en hluti af svellinu verður tekinn undir stelpuhokkídaginn. Foreldrar geta því komið og skautað sér til skemmtunar á meðan stelpurnar verða á hinum enda svellsins að kynnast íshokkí.
Það eru allir velkomnir - komið og prófið.