Víkingar - SR og Ynjur - SR (breyting)

Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Laugardaginn 15. september verður sannkölluð hokkíveisla í höllinni - tveir meistaraflokksleikir í boði og engin afsökun fyrir því að mæta ekki og hvetja liðin okkar. Athugið: Breyting á kvennaleiknum, Ynjur spila við SR (ekki Ásynjur).

Víkingar - SR
Strákarnir hefja veisluna þegar Víkingar fá SR í heimsókn og hefst sá leikur kl. 16.30. Víkingar ætla sér að sjálfsögðu sigur í þessum leik eins og öllum öðrum. Þeir komu sárir heim eftir viðureign við Björninn á dögunum þar sem þeir náðu þriggja marka forystu en töpuðu síðan leiknum með einu marki þegar upp var staðið. Fyrri hluti þess leiks lofaði góðu fyrir veturinn og vonandi að menn hafi náð að taka það góða með sér úr þeim leik og verði tilbúnir í að taka fast á móti SR-ingum á heimavelli.

Víkingar hafa fengið liðsstyrk með nýjum markmanni, Anders Jespersen, og varnarmanninum Zdenek Prpchazka, auk þess sem Jóhann Leifsson leikur nú aftur hér heima. Nánar verður fjallað um breytingar á leikmannahópum liðanna okkar síðar.

Ynjur - SR (breyting frá upphaflegri leikjadagskrá)
Strax að loknum leik Víkinga og SR, eða væntanlega um kl. 19.00, hefst síðan leikur hjá stelpunum. Samkvæmt upphaflegri leikjadagskrá ÍHÍ áttu Ásynjur að mæta liði SR, en nú hefur verið gerð breyting á leikjadagskránni í september og október og því verða það Ynjur sem mæta liði SR að þessu sinni. Það breytir hins vegar ekki því að eins og hjá strákunum verður að sjálfsögðu spilað til sigurs og búist við sigri eins og í öðrum leikjum.

Þróunarstarf með það að markmiði að festa kvennahokkí enn betur í sessi og auka veg þess með fjölgun liða heldur áfram í vetur og hafa verið settar sérstakar reglur sem leyfa meiri tilfærslur (lán) leikmanna á milli liða eftir því sem þörf verður á miðað við aðstæður hverju sinni.

Leyfilegt er að fá lánaða leikmenn á milli liða og gildir það um öll liðin í deildinni, Ásynjur, Ynjur, Björninn og SR. Þrír af leikmönnum Ásynja munu leika með Ynjum að þessu sinni, þær Elísabet Kristjánsdóttir, Arndís Sigurðardóttir og Linda Brá Sveinsdóttir. Þá fær SR-liðið lánaða tvo leikmenn úr Birninum og þrjá frá SA, þær Írisi Hafberg í markið ásamt Guðrúnu Blöndal og Jónínu Guðbjartsdóttur. Samkvæmt upplýsingum frá Söruh Smiley, þjálfara SA, eru Þessar tilfærslur gerðar til að styðja við uppbyggingarstarfið í kvennahokkíinu hjá SR og gera leikina að meiri skemmtun fyrir áhorfendur og ekki síður til að leikmennirnir sjálfir fái meiri keppni út úr leikjunum. Björninn og SR áttust við á dögunum og lauk leiknum með 29-3 sigri Bjarnarins og kveðst Sarah vonast til að með þessu verði leikurinn meira spennandi en ella, en engu að síður býst hún við að Ynjur muni stýra leiknum, sækja hart að marki SR-liðsins og fá næga æfingu í markaskoruninni.


Mynd: Sigurgeir Haraldsson