Karfan er tóm.
Víkingar og Ynjur halda suður yfir heiðar í dag til að mæta Reykjavíkurliðunum. Víkingar leika hreinan úrslitaleik gegn Birninum
í Egilshöllinni um deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni. Ynjur leika gegn SR í Laugardalnum.
Víkingar eru nú þremur stigum á undan Birninum, en Bjarnarmenn með meiri markamun. Það þýðir að Víkingum myndi nægja jafntefli til að halda efsta sætinu, en Bjarnarmenn þurfa sigur og ekkert annað. Með sigri myndu Bjarnarmenn ná Víkingum að stigum, liðin vera jöfn í innbyrðis viðureignum, en markamunur betri hjá Birninum. Með jafntefli færu Víkingar í 39 stig og Björninn í 36 og úrslitin þar með ráðin þrátt fyrir aukastigið sem í boði væri í framlengingu. Með sigri myndu Víkingar vinna deildina með sex stiga mun.
Áréttað skal að það er ekki rétt sem kom fram í Vikudegi núna í vikunni að Víkingar eigi heimaleik í dag. Leikurinn fer fram í Egilshöllinni eins og áður sagði. Leikur Bjarnarins og Víkinga hefst kl. 18.00. Við ítrekum það sem bent hefur verið á hér á heimasíðunni fyrr í vetur: Stuðningur áhorfenda skiptir máli og því hvetjum við Akureyringa í höfuðborginni til að mæta og hvetja okkar lið.
Hálftíma eftir að leikur Bjarnarins og Víkinga hefst í Egilshöllinni hefja Ynjur leik sinn gegn SR í Skautahöllinni í Laugardal. Þetta er lokaleikur Ynja í deildinni, en þar eru úrslitin löngu ráðin eins og áður hefur komið fram.