Víkingar - Björninn 3-4 (0-0, 2-1, 1-2, 0-1)

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (11.10.2011)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (11.10.2011)


Víkingar töpuðu fyrir Birninum í framlengdum leik í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. 

Víkingar söknuðu sterkra leikmanna, en hvorki Zdenek Prohazka né Lars Foder spiluðu með Víkingum í kvöld, báðir hvíldu vegna meiðsla. 

Víkingar voru heldur ákveðnari í byrjun leiks og fengu góð færi, en hvorugu liðinu tókst þó að skora í fyrsta leikhluta. Víkingar voru þó hættulegri til að byrja með og aðgangsharðari en gestirnir.

Undir lok fyrsta leikhluta fengu tveir leikmenn Bjarnarins refsingu þannig að Víkingar spiluðu fimm á móti þremur í nær tvær mínútur í upphafi annars leikhluta. Eftir mikla pressu að marki Bjarnarins tókst Andra Má Mikaelssyni loksins að skora, reyndar eftir að fjórði Bjarnarmaðurinn kom inn á.

Um miðjan leikhlutann jafnaði Hjörtur Björnsson fyrir Björninn eftir stoðsendingu frá Úlfari Jóni Andréssyni. Þeir náðu þá að nýta sér mistök Víkinga sem misstu pökkinn við eigið mark.

Seint í öðrum leikhluta tókst Víkingum aftur að ná forystunni. Þeir voru þá einum fleiri og náðu að stilla upp í góða sókn, létu pökkinn ganga og það skilaði marki, Ingþór Árnason skoraði eftir stoðsendingu Jóhanns Más Leifssonar og Orra Blöndal.

Vandræði vegna brottvísana
Víkingar lentu í vandræðum í upphafi þriðja leikhluta fengu þá tvær brottvísanir á skömmum tíma og léku þrír á fimm. Bjarnarmönnum tókst að nýta sér það tækifæri og jöfnuðu leikinn.

Vandræði vegna brottvísana héldu áfram hjá heimamönnum, sem fengu 12 mínútur í refsingu á meðan Bjarnarmenn fengu aðeins tvær mínútur. Einum fleiri náðu gestirnir forystu þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Daniel Kolar skaut þá af löngu færi eftir stoðsendingu Birkis Árnasonar og Hrólfs Gíslasonar.

Skömmu fyrir leikslok fengu Bjarnarmenn loks refsingu og einum fleiri náðu Víkingar að jafna, 3-3. Markið skoraði Björn Már Jakobsson með góðu skotri frá hægri, alveg út við stöng þegar 44 sekúndur voru eftir af leiknum. Stoðsendingu áttu Stefán Hrafnsson og Gunnar Darri Sigurðsson.

Framlengt
Það þurfti því framlengingu til að knýja fram úrslit og eftir um tvær og hálfa mínútu náði Andri Helgason að tryggja Bjarnarmönnum sigurinn. Úrslitin: Víkingar - Björninn 3-4 (0-0, 2-1, 1-2, 0-1)

Víkingar - mörk/stoðsendingar
Andri Már Mikaelsson 1/0
Ingþór Árnason 1/0
Björn Már Jakobsson 1/0
Orri Blöndal 0/2
Sigurður S. Sigurðsson 0/1
Jóhann Már Leifsson 0/1
Stefán Hrafnsson 0/1
Gunnar Darri Sigurðsson 0/1
Refsingar: 22 mínútur
Varin skot: 23 

Björninn - mörk/stoðsendingar
Hjörtur Björnsson 2/0
Daniel Kolar 1/1
Andri Helgason 1/0
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Birkir Árnason 0/2
Hrólfur Gíslason 0/1
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 20 

Bein atvikalýsing

Tölfræði mfl. kk (ÍHÍ)
Staðan, mfl. kk. (ÍHÍ)