Hver ekur eins og ljón...?


Segja má að leikur Víkinga gegn Húnum í Egilshöllinni sl. laugardag hafi verið sögulegur, en þó ekki fyrir það sem gerðist í leiknum sjálfum né úrslit hans. Sarah bætti einni Smiley í heiminn, Bjössi á mjólkurbílnum ók eins og ljón, stærðfræðikennarinn misreiknaði sig og orð fyrrum þjálfara SA, Josh Gribben, segja kannski allt sem segja þarf: "Oh, the things you miss for hockey!"

Eins og flestir vita eignuðust þau Sarah Smiley og Ingvar Þór Jónsson dóttur á laugardagskvöldið - já, á leikdegi! Ingvar er leikmaður Víkinga og ávallt reiðubúinn að leggja sig fram fyrir liðið og félagið. Þar sem ekkert benti til þess að fæðing væri í vændum alveg strax fór hann með Víkingum suður og spilaði leikinn gegn Húnum. Án þess að fréttaritari hafi beinlínis fregnað af frammistöðu hans þá gerum við ráð fyrir að Ingvar hafi spilað vel eins og hans er von og vísa. Leiknum lauk og ekkert sem kom á óvart þar. Víkingar sigruðu með þriggja marka mun. En stærðfræðikennarinn misreiknaði sig.


Þegar leik lauk og leikmenn gengu til búningsklefa fékk þjálfarinn símtal (af því að Ingvar hafði ekki svarað í sinn síma!). Rikki rétti Ingvari símann og þá fékk hann fréttirnar: Allt að fara í gang. Það voru því höfð snör handtök eftir leikinn og brunað strax norður. Þeir Björn Már Jakobsson, Orri Blöndal og Sigurður Sveinn Sigurðsson höfðu ákveðið að ferja bílaleigubíl norður og tóku að sér það ábyrðgarverkefni að ferja hinn væntanlega föður norður í snarheitum – en samt á löglegum hraða, að sjálfsögðu. Ferðin gekk ekki alveg áfallalaust og vitringarnir þrír töfðust á leið sinni norður. Blönduós þurfti að geyma þá í dágóða stund vegna bilunar. (Eftir á að hyggja vekur þó færsla frá Bjössa á Facebook í gær athygli, en þar segir starfsmaður mjólkursamlagsins: "Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri?"

Meanwhile in Akureyri
Guðrún Kristín Blöndal, eiginkona Sigga Sig, var á leið í afmæli, búin að hafa sig til og barnapían mætt á svæðið þegar hún fékk símtal frá hinni verðandi móður. Sarah Smiley var komin „af stað“, Ingvar Þór að verjast ágangi Húna í Egilshöllinni og því kom Gugga inn sem „varafaðir“ við fæðinguna. 

Eftir því sem fréttaritari kemst næst gekk svo allt saman nokkuð hratt og vel fyrir sig. Sarah fór upp á fæðingardeild kl. 19 og kl. 21.06 ól hún dóttur. Hraðamyndavélar sýna að þá var bílaleigubíll hinna fjögurra fræknu hokkímanna á hraðferð um Víðidalinn. 

Einn af titlum Söruh Smiley er "Head of Development of Women's Hockey in Iceland". Við fullyrðum að hún stendur sig prýðilega í því hlutverki. Við óskum fjölskyldunni til innilega til hamingju.

En þá að leiknum... (hér er leikskýrslan)

Húnar komust yfir snemma leiks með marki frá Róbert Frey Pálssyni, en það reyndist eina markið sem heimamönnum tókst að skora í leiknum. Á eftir fylgdu þrjú mörk frá Ben DiMarco (eitt þeirra með stoðsendingu þá verðandi föður) og svo eitt mark frá Ingþóri Árnasyni. Úrslitin: Húnar - Víkingar 1-4 (1-2, 0-2, 0-0). 

Mörk/stoðsendingar
Húnar
Róbert Freyr Pálsson 1/0
Refsimínútur: 33
Varin skot: 56 (25+14+17) 

Víkingar
Ben DiMarco 3/0
Ingþór Árnason 1/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1 
Jóhann Már Leifsson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsimínútur: 10
Varin skot: 22 (7+9+6)

Næsti leikur Víkinga verður á heimavelli þegar SR-ingar koma í heimsókn laugardaginn 23. nóvember. En næstkomandi laugardag leika hins vegar Jötnar gegn Birninum í Skautahöllinni á Akureyri og hefst sá leikur kl. 17.30.

Myndirnar með fréttinni sýna þau hjónin - að sjálfsögðu bæði sem Íslandsmeistara. Myndina af Söruh tók Ásgrímur Ágústsson, en Sigurgeir Haraldsson á myndina af Ingvari.