Karfan er tóm.
Ynjur lögðu land undir fót í gærkvöldi, föstudagskvöld, þegar þær sóttu stöllur sínar í Reykjavík, sameinuðu liði SR og Bjarnarins, heim. Fyrir leikinn voru Ynjur í öðru sæti í deildinni með 26 stig en Ásynjur efstar með 28 og höfðu spilað einum fleira en Ynjur og Reykjavík. Fyrirfram mátti búast við sigri Ynja enda er Reykjavíkurliðið án stiga. Það gekk eftir og Ynjur eru nú á toppi deildarinnar með einu stigi meira en Ásynjur.
Leiknum seinkaði töluvert og leikmenn þurftu að bíða tilbúnar eftir að komast út á ís. Þær voru því kaldar þegar leikurinn loksins hófst og það tók þær nokkurn tíma að komast í gang. Lítið var því um mörk í fyrstu lotu, Silvía Rán átti fyrsta og eina markið undir lok lotunnar.
Á þessu varð heldur betur breyting í annarri lotu. Silvía skoraði annað mark leiksins þegar rúmar 5 mínútur voru liðnar af annarri lotu. Þá náði hún frákasti og skoraði örugglega. Rúmri mínútu síðar skoraði hún sitt þriðja mark, nú með stoðsendingu frá Berglindi. Þær snéru stuttu síðar hlutverkunum við þegar Berglind skoraði með stoðsendingu frá Silvíu. Reykjavíkurstúlkur áttu næstu tvö mörk en Sunna skoraði fimmta mark Ynja með stoðsendingu frá Silvíu, að þessu sinni einni færri, en Elín hafði farið í boxið. Berglind náði að bætta sjötta markinu við með stoðsendingu frá Sögu, áður en Elín kom aftur inn á. Silvía bætti fljótlega sjöunda og áttunda markinu við og var þar með komin með fimm mörk. Ragnhildur bætti níunda markinu við þegar um ein og hálf mínúta voru til leikhlés, stoðsendingu átti Teresa.
Ynjur héldu uppteknum hætti í þriðju lotu og sóttu fast að marki Reykjavíkurstúlkna. Sunna skoraði tíunda mark þeirra eftir tæpar þrjár mínútur en stuttu seinna minnkuðu þær reykvísku muninn í 3-10. Apríl Mjöll skoraði ellefta mark Ynja þegar lotan var rúmlega hálfnuð en ekki löngu síðar kom fjórða reykvíska markið. Silvía, með aðstoð Sunnu og Teresu, skoraði tólfta mark Ynja þegar um 8 og hálf mínúta voru eftir. Fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 4-12.
Ynjur voru án þjálfara síns enn og aftur þar sem Jussi var sjálfur að spila í Laugardalnum. Alda Ólína var Ynjunum til aðstoðar á bekknum. Næsti leikur Ynja er þriðjudaginn 27. febrúar gegn Reykjavík í Skautahöllinni á Akureyri en þar áður eiga Ásynjur útileik við Reykjavík, laugardaginn 24. Liðin eiga bæði eftir tvo leiki gegn Reykjavíkurliðinu og svo einn innbyrðisleik. Það verður að öllum líkindum hreinn úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn.
Mörk (stoðsendingar): Silvía 6 (2), Berglind 2 (1), Sunna 2 (1), Apríl 1, Ragnhildur 1, Teresa (2) og Saga (1)