Karfan er tóm.
Dregið var í riðla við upphaf mótsins í gær. Í A-riðli eru Víkingar, Ís-lendingar, Fífurnar og Garpar. Í B-riðli eru Fálkar, Skytturnar, Mammútar og Svarta gengið. Að lokinni riðlakeppni verður leikið í kross, 1. sæti A-riðils gegn 2. sæti B-riðils og svo framvegis, sigurvegarar undanúrslita leika úrslitaleik, tapliðin leika um bronsið. Sama aðferð verður notuð til að leika um 5.-8. sæti.
Mótsreglurnar eru þær sömu og notaðar voru á flestum mótum sl. vetur. Neðst í fréttinni er tengill á skjal með mótareglum Krulludeildar. Að sjálfsögðu gilda síðan krullureglur WCF þar sem þær eiga við.
Fresta þurfti tveimur leikjum fyrstu umferðar, annars vegar vegna fjarveru Garpa sem búa sig nú undir þátttöku í C-keppni Evrópumótsins og hins vegar vegna veikinda í röðum Mammúta. Jafnframt þarf einnig að fresta leik Garpa í 2. umferð gegn Fífunum. Leikur Mammúta gegn Skyttunum í 1. umferð B-riðils fer fram miðvikudagskvöldið 28. september að óbreyttu.
Úrslitin í fyrstu umferðinni urðu þau að í A-riðli sigruðu Fífurnar nýjasta lið íþróttarinnar, Ís-lendinga, 6-0. Svarta gengið er mætt aftur til leiks eftir að hafa misst úr einhver mót sl. vetur. Liðið minnti á sig strax í fyrstu umferð með sigri á Fálkum, 6-1.
Neðst í fréttinni er tengill á excel-skjal með úrslitum, leikjadagskrá og liðsskipan. Eitthvað vantar reyndar af nöfnum inn í þetta skjal og eru liðsstjórar beðnir um að fara yfir nafnalista síns liðs. Einnig eru hér að neðan tenglar á mótareglur Krulludeildar og krullureglur WCF.
Önnur umferð Akureyrarmótsins fer fram mánudagskvöldið 3. október en þá fara fram þrír leikir: Fálkar-Skytturnar, Svarta gengið-Mammútar, Víkingar-Ís-lendingar. Leik Garpa gegn Fífunum er frestað vegna fjarveru Garpa.