Karfan er tóm.
SA stúlkur koma stigalausar heim úr Reykjavíkurferð í kvöld en Reykjavík vann sanngjarnan 5:4 sigur í Skautahöllinni í Laugardalnum. Þrátt fyrir það eru SA stúlkur enn með mikið forskot í deildinni en þær eru með 13 stig en Reykjavík með 5. Næsti leikur liðanna er næsta laugardag á heimavelli SA.
Reykjavíkurstúlkur byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu sitt fyrsta mark strax eftir tæpar tvær mínútur. Hilma Bóel svaraði með góðu marki með stoðsendingu frá Önnu Sonju og Berglindi en Rvk komst svo aftur yfir efir rúmar 14 mínútur. Það var svo Kolbrún sem jafnaði aftur fyrir SA undir lok lotunnar og staðan í hléi 2:2. SA-stúlkur komu hressar inn í aðra lotuna og Anna Sonja skoraði lúmskt mark strax eftir rúmar tvær mínútur og kom þar með sínu liði yfir í fyrsta sinn í leiknum. Stoðsendingu átti Hilma. Anna fór svo í skammarkrókinn fljótt eftir þetta en SA varðist vel einni færri. Þær sóttu síðan stíft að marki Reykjavíkurstúlkna en náðu ekki að skora. Svo fengu þær refsingu vegna þess að þær voru of margar á ís en náðu aftur að verjast vel. Þegar tæpar 6 mínútur voru eftir af lotunni skoraði Reykjavík þriðja mark liðsins og aftur var jafnt. Skömmu síðar var dæmt á Reykjavíkurliðið og SA stúlkur náðu aftur forystunni í yfirtölunni. Það var Teresa sem átti markið eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu og Apríl.
SA byrjaði einni yfir í þriðju lotu en náði ekki að skora í yfirtölunni. Það var hins vegar Reykjavík sem skoraði þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af lotunni og jöfnuðu þar með aftur. Þær komust svo yfir þegar lotan var hálfnuð. Mikil barátta var um pökkinn eftir það, en minna um spil. Síðustu mínúturnar sóttu SA-stúlkur stíft að marki Reykjavíkur. Reykjavík fékk refsingu en SA náði ekki að nýta sér liðsmuninn og leiknum lauk með sanngjörnum 5:4 sigri Reykjavíkur.
Það vantaði máttarstólpa í lið SA eins og Söruh og Lindu í kvöld og þær virtust ekki koma nógu ákveðnar inn í leikinn. Sami, þjálfari þeirra, sagði eftir leikinn, að við það hefði Reykjavíkurliðið fengið vind í seglin, ekki síst andlega. Hann var sáttur með vinnusemi sinna leikmanna megnið af leiknum en sagði að það væri margt sem þyrfti að bæta. Hann var einnig ánægður með baráttuna í síðustu lotunni, þó hún hefði ekki skilað liðinu sigri í þetta sinn og sagði að leikmenn hefðu stundum þurft að spila stöður sem þær voru ekki vanar og staðið sig vel.
Mörk (stoðsendingar): Hilma 1 (1), Anna Sonja 1 (1), Kolbrún 1 (1), Teresa 1, Berglind (1), Apríl (1)
Sólveig Lilja stóð í markinu og varði 17 skot.