Karfan er tóm.
Það var sætur sigur sem vannst á heimavelli Skautafélags Reykjavíkur í gærkvöldi í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn 2007. Það var á brattann að sækja fyrir okkur norðanmenn eftir að hafa tapaði í tvígang fyrir SR um nýliðna helgi og tapað þar með heimaleikjaréttinum.
Það var óheppilegt en ekki óyfirstíganlegt að geta ekki hafið keppnina á heimavelli en staðreynd málsins er sú að SA liðið hefur alltaf kunnað vel við sig í Laugadalnum og því var það ekki fyrirkvíðanlegt að hefja úrslitarimmuna þar – enda kom það á daginn.
Það verður þó að segjast eins og er að það blés ekki byrlega í upphafi leiks hjá okkur því SR-ingar skoruðu tvö mörk strax í 1. lotu sem voru að okkar mati heldur ódýr. Fyrra markið lak í gegnum klofið á Ómari Smára í markinu og í seinna markinu var vafamál hvort pökkurinn hafði farið yfir marklínuna áður en dómari leiksins flautaði.
Til að bæta gráu ofaná svart gekk hvorki né rak í sóknarleiknum og enn létu mörkin standa á sér. Staðan var því 2 – 0 fyrir SR þegar 2. lota hófst. Liðið barðist vel í 2. leikhluta og skapaði sér fjölmörg tækifæri en allt kom fyrir ekki fyrr en Jón Gísla opnaði loks markareikninginn og minkaði muninn í eitt mark. Þannig stóðu leikar eftir 2. lotu og því ríkti mikil spenna fyrir 3. og síðustu lotuna. Stemningin var góð í liðinu og einhvern veginn vorum við sannfærðir um að við værum með þetta í hendi okkar. Í 3. lotunni gekk allt upp og loksins fóru pekkirnir að lenda í markmöskvunum fyrir aftan Birgi Örn Sveinsson, sem átt hefur hvern stórleikinn á fætur öðrum að undanförnu.
Tomas Fiala jafnaði leikinn en það var síðan Elvar Jónsteinsson sem setti “gamewinner-inn” þegar við vorum einum færri, (sem er ávallt sérstaklega sætt), eftir að hafa sett mikla pressu á SR-vörnina í power play uppspili. Tomas og Jón Gísla bættu svo við einu marki hvor og tryggðu góðan sigur. Síðasta lotan vannst 4 – 0 og því endaði leikurinn með 5 – 2 sigri okkar Akureyringa.
Neðangreindar upplýsingar um mörk og stoðsendingar eru fengnar af vef Íshokkísambands Íslands.
Mörk/stoðsendingar SR:
Stefán Hrafnsson 1/0
Daniel Kolar 1/0
Mirek Krivanek 0/1
Brottrekstrar/fjöldi: 24 mín/7
Mörk/stoðsendingar SA:
Jón B. Gíslason 2/1
Tomas Fiala 2/1
Elvar Jónsteinsson 1/0
Jón Ingi Hallgrímsson 0/1
Steinar Grettisson 0/1
Brottrekstrar/fjöldi: 8 mín/4