Karfan er tóm.
Tveir ungir leikmenn fengu tækifæri í leiknum, þeir Sigurður Reynisson og Ingþór Árnson spiluðu sína fyrstu leiki með meistaraflokki. Varnarmannaparið Ingvar Þór Jónsson og Björn Már Jakobsson spiluðu í sókninni og fóru mikinn, en sá fyrrnefndi var með þrennu í leiknum. Annars spiluðu flestir varnarmenn í sókn og sóknarmenn í vörn.
Lið Reykjavíkur var að stærstum hluta sett saman úr leikmönnum frá Skautafélagi Reykjavíkur. Richard Eiríkur spilaði í vörninni ásamt einhverjum samlanda sínum og í sókninni var m.a. Gunnlaugur Björnsson sem þekktari er fyrir afrek sín á milli stanganna. Í centerstöðu var einnig Róbert Pálsson varnarmaður úr Birninum. Hættulegastir í sókn sunnlendinganna voru að venju Gauti Þormóðsson og Daniel Kolar.
Akureyri vann leikinn með 6 mörkum gegn 3 og tók Sveinn Björnsson við Bæjarkeppnisbikarnum fyrir hönd Akureyrar. Bikarinn er hinn veglegasti og var gefinn af Sjóvá árið 1988. Stefnt er að því að gera þetta að árlegum viðburði og gera enn meira úr þessum viðureignum í framtíðinni. Bæjarkeppni kvenna fer svo fram um næstu helgi, sömu helgi og kvennamótið fer fram í Skautahöllinni á Akureyri.