Ásynjur fara inn í nýja árið á toppnum

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

Það var hart barist í gærkvöld þegar Ásynjur tóku á móti Ynjum í lokaleik Hertz deildarinnar þetta árið en Ásynjur sigruðu í leiknum með tveimur mörkum gegn engu með nokkuð sannfærandi hætti.

Ynjur komu nokkuð borubrattar til leiks enda með landsliðsmarkmann í markinu og sterka liðsuppstillingu en í lið þeirra vantaði þó þær Teresu, Söndru og Stefaníu. Ásynjur misstu markmann sinn Heiðrúni nýlega þar sem hún hefur ákveðið að leggja skautanna á hilluna en hennar í stað stóð Fanney Stefánsdóttir í fyrsta sinn í meistaraflokki en hún hefur verið markmaður Valkyrja hingað til. Í liðið vantaði þar að auki Hörpu, Thelmu, Birnu Bald og Vigdísi. Það var því léttir fyrir Ásynjur að sjá Huldu Sigurðardóttur reima á sig skautanna á nýjan leik en hún lék í hjarta varnarinnar í leiknum og ljóst að hún hefur engu gleymt.

Ásynjur mættu gríðarlega grimmar til leiks og það var ljóst frá fyrstu mínútu að þær ætluðu að verja mark sitt með kjafti og klóm. Ásynjur voru töluvert sterkara liðið í fyrstu lotunni en báðir markverðirnir gerðu vel og staðan 0-0 eftir fyrstu lotu. Ásynjur tóku öll völd á vellinum í annarri lotu og náðu forystunni eftir 26. mínútna leik þegar Jónína Guðbjartsdóttir smellti frákasti í markið eftir langskot Guðrúnar Blöndal. Ásynjur gáfu ekkert eftir við að ná forystunni heldur héldu uppi varnarmúr gegn ráðlausum Ynjum sem náðu aðeins einu skoti í lotunni á mark. Ynjum gekk reyndar lítið að komast nálægt marki Ásynja í öllum leiknum enda leiðin þyrnum strjáð af grimmum Ásynjum og Fanney í markinu sem gerði engin mistök. Ásynjur bættu við öðru markinu um miðja þriðju lotuna í undirtölu þegar Eva Karveldsóttir fann Söruh Smiley á miðjum ísnum en hún lék á aftasta varnarmann Ynja og smellti svo pekkinum snyrtilega upp í vínkilinn, glæsilegt mark. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum sem endaði með 2-0 sigri Ásynja sem hafa líklega fundið arftaka Heiðrúnar í markinu en Fanney spilaði fullkomin leik í sinni frumraun sem Ásynja.

Næsti leikur í Hertz deild kvenna fer fram 3. Janúar þegar Ynjur fá Börninn í heimsókn í Skautahöllina á Akureyri en leiktími er settur kl 19.00.

Mörk og stoðsendingar Ásynja:

Sarah Smiley 1/0

Jónína Guðbjartsdóttir 1/0

Guðrún Blöndal 0/1

Eva Karvelsdóttir 0/1