Ásynjur töpuðu stigi gegn Reykjavík

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)

Ásynjur lögðu land undir fót í gær, laugardag, og sóttu sameinað lið SR og Bjarnarins heim. Fyrirfram mátti gera ráð fyrir sigri Ásynja en Reykjavíkurstúlkur hafa þó verið að sækja í sig veðrið og þær komu grimmar til leiks og ætluðu sér greinilega sigur. Þær eru komnar í nýjar, flottar treyjur og liðið virðist greinilega vera komið til að vera.

Ásynjur voru frekar fáliðaðar, en það hefur oftast ekki háð þeim. Fyrsta lota var markalaus en heldur dróg til tíðinda í annarri lotu. Eftir tæpar 3 mínútur komust Reykjavíkurstúlkur á blað og ekki löngu síðar bættu þær öðru marki við og staðan 2-0 um miðja lotuna. Þá hrukku Ásynjur loks í gang og Sarah skoraði fyrsta mark Ásynja. Undir lok lotunnar skoraði Reykjavíkurliðið sitt þriðja mark en Eva náði að minnka muninn í 3-2 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af annarri lotu.

Í þriðju lotu var allt í járnum þar til Ásynjur tóku leikhlé þegar rúm ein og hálf mínúta var til leiksloka. Þær tóku síðan Fanneyju úr markinu til að setja sjötta útispilarann inn á. Það virkaði því tæpri hálfri mínútu síðar skoraði Eva og jafnaði fyrir Ásynjur. Staðan 3-3 í lok þriðju lotu og leikurinn framlengdur.

Reykjavíkurstúlkur misstu leikmann út af eftir rúmar tvær og hálfa mínútur og Ásynjur nýttu sér það og Jónína skoraði sigurmark þeirra 21 sek. áður en framlengingin hefði átt að klárast. Tvö stig í hús og fyrsta stig Reykjavíkur staðreynd.

Ásynjur mættu e.t.v. of kokhraustar til leiks þar sem Reykjavíkurliðið hefur hingað til yfirleitt verið frekar auðveld bráð. Ásynjur komust aldrei almennilega í gang, Guðlaug í markinu hjá Reykjavíkurliðinu varði mörg skot og átti sennilega sinn besta leik í vetur. Hin unga og efnilega Brynhildur Hjaltested, sem er nýkomin í liðið, var líka mjög öflug gegn þeim. Ásynjur skutu mikið úr erfiðum færum og áttu mörg stangar- og sláarskot. Þær áttu í gærkvöldi einn sinn versta leik á tímabilinu meðan Reykjavíkurliðið átti sennilega sinn besta. Sarah Smiley, sem var spilandi þjálfari Ásynja í leiknum í fjarveru Barts, sagði að þær hefðu ekki byrjað leikinn nógu vel meðan Reykjavíkurstúlkur hefðu byrjað af krafti. Þær hefðu verið fljótar að refsa þeim fyrir þau mistök sem þær gerðu og vörn þeirra þétt.

Það er ljóst að Ynjurnar verða að vera vel vakandi á þriðjudaginn þegar þær fá Reyjavík í heimsókn ef þær ætla að landa öllum stigunum. Þær eru nú stigi á eftir Ásynjum en eiga leik til góða. Ásynjur og Ynjur eigast svo við á fimmtudag og Reykjavíkurstúlkur koma svo aftur norður um næstu helgi og spila gegn báðum SA liðunum. Það eru síðustu leikirnir í deildinni en úrslitakeppnin hefst þriðjudaginn 6. mars.

Mörk (stoðsendingar): Eva 2 (1), Sarah 1 (2) og Jónína 1