Karfan er tóm.
Heimsmeistaramót í tvenndarleik (Mixed Doubles) og heimsmeistaramót karla og kvenna fimmtíu ára og eldri eiga að hefjast í borginni Chelyabinsk í Rússlandi nú um helgina. Óvíst er hvort allir keppendur ná þangað í tæka tíð vegna flugbannsins sem ríkt hefur víða í Evrópu í dag. Ef úr rætist á morgun ættu þó flestir að ná á áfangastað í Rússlandi á laugardag, degi síðar en dagskráin gerði ráð fyrir. Mótið verður sett á laugardag og fyrstu leikir eru á sunnudagsmorgun. Þá er krullufréttaritara kunnugt um fólk sem átti bókað flug frá ýmsum stöðum í Evrópu og var á leið á Kingo Cup í Silkeborg í Danmörku en hefur í staðinn þurft að ferðast með lestum og rútum.
Hvað Ice Cup varðar er auðvitað ekki hægt að fullyrða enn hvort allir keppendur muni komast til landsins á áætluðum tíma. Eitt liðið áætlar að koma til Íslands föstudaginn 23. apríl og var á dagskránni að ferðast um Suður- og Austurland og koma til Akureyrar þá leiðina. Annað lið var búið að skipuleggja ferð frá Akureyri, austur og suður um eftir mótið. Bæði þessi lið eru í óvissu um hvort þessi ferðalög ganga upp vegna skemmda á vegum og hættu á flóðum. Öll liðin sem koma að utan eru auðvitað háð flugsamgöngum, vindátt og ferðalagi öskunnar úr gosinu.
Segja má að keppendur komi úr ýmsum áttum, frá Rússlandi um Kaupmannahöfn, frá Skotlandi og frá Bandaríkjunum. Hluti af öðru Bandaríska liðinu kemur frá Grikklandi en þau hjón voru einmitt með síðasta flugi til London í dag áður en lokað var, eru á leið til Grikklands í siglingu áður en þau koma til Íslands.
Það er því alls ekki hægt að fullyrða á þessari stundu að skráðir keppendur á Ice Cup komist allir til landsins til að taka þátt í mótinu. Auðvitað vona menn það besta og enn eru um tvær vikur í mót og margt sem getur gerst hjá náttúruöflunum á þeim tíma.