Horfnir á 60 sekúndum

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (26.11.2011)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (26.11.2011)


Jötnar töpuðu fyrir Húnum, 3-5, í kvöld. Fjögur mörk voru skoruð á síðustu fjórum mínútum leiksins, Jötnar jöfnuðu með tveimur mörkum með 16 sekúndna millibili, en Húnar slökktu vonir heimamanna með tveimur mörkum á lokamínútunni.

Gestirnir náðu frumkvæðinu í markaskorun strax í upphafi leiksins, skoruðu eftir rúmlega einnar mínútu leik og aftur eftir tæpar átta mínútur. Jötnar sóttu að vísu heldur meira í fyrsta leikhlutanum en markvörður Húna varði oft vel.

Fá skot á markið
Jötnar skoruðu eina mark annars leikhluta, en það gerði Jóhann Már Leifsson strax á fyrstu mínútunni eftir stoðsendingu frá Zdenek Prochazka. Báðum liðum gekk illa að koma skotum á markið í öðrum leikhluta eins og tölurnar sýna, fjögur varin skot frá Húnum og sex varin skot frá Jötnum. Jötnum tókst ekki einu sinni að nýta sér tækifærið þegar þeir voru einum fleiri í heilar fimm mínútur eftir 5+20 mínútna dóm á Húna. Á 34. mínútu fékk Sigursteinn Sighvatsson, leikmaður Húna, 5+20 mínútur fyrir "game misconduct", sendur í sturtu eftir að hafa kastað af sér hönskunum og vaðið í Sigurð Reynisson með hnefana á lofti. Jötnum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn, eins og áður saagði, og staðan 1-2 eftir annan leikhluta.

Loksins líf á lokamínútunum
Eftir rúma mínútu í þriðja leikhluta náðu Húnar aftur tveggja marka forskoti. Jötnar töpuðu pökknum þá illa í sókninni, Brynjar Bergmann brunaði fram og skoraði einn á móti markmanni. Áfram áttu Jötnar í vandræðum með að ná skotum á markið. Langt var liðið á leikhlutann og heimamenn orðnir vonlitlir um að Jötnum tækist að komast inn í leikinn. En síðustu mínúturnar urðu þó heldur betur fjörugar.

Með 16 sekúndna millibili skoruðu Jötnar tvö mörk og jöfnuðu leikinn. Fyrst átti Andri Freyr Sverrisson gott skot frá vinstri sem rataði framhjá markverði Húna, stoðsendinguna átti Ingþór Árnason. Gestirnir voru síðan heldur ósáttir við jöfnunarmark Jötna. Zdenek Prochaska fékk þá pökkinn nálægt marki Húna, náði skoti og rann um leið á markvörð Húna. Dómarar leiksins kölluðu markadómarann til sín til skrafs og ráðagerða og niðurstaðan var að pökkurinn hafi verið inni og markið því dæmt gilt. Þetta kveikti að sjálfsögðu vonir hjá heimamönnum um möguleika á að klára leikinn, en Húnar voru á öðru máli og skoruðu tvisvar á lokamínútunni.

Horfnir á 60 sekúndum
Fjórða mark Húna kom þegar 46 sekúndur voru eftir af leiknum. Brynjar Bergmann fékk þá langa sendingu fram miðjuna, skautaði upp að markinu og skoraði einn á móti markmanni. Um hálfri mínútu síðar, eða þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum, voru Jötnar í sókn og reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn. Eftir mistök í sókninni náðu Húnar pökknum og brunuðu fram, Falur Guðnason sendi á Úlfar Jón Andrésson sem skoraði. Úrslitin: Jötnar - Húnar 3-5

Jötnar - mörk/stoðsendingar
Zdenek Prochazka 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/0
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Ingþór Árnason 0/1
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 21 (8+4+9)

Húnar - mörk/stoðsendingar
Brynjar Bergmann 2/0
Úlfar Jón Andrésson 2/0
Indass Edmunds 1/0
Þórður Þórðarson 0/1
David MacIsaac 0/1
Steindór Ingason 0/1
Falur Guðnason 0/1
Refsingar: 39 mínútur
Varin skot: 23 (8+6+9)

Tveir leikir laugardaginn 24. nóvember
Eftir nokkurt hlé á hokkíleikjum vegna veðurs og frestana, er leikið þétt á næstunni. Strax næsta laugardag, 24. nóvember, verða tveir leikir í Skautahöllinni á Akureyri. Fyrst mæta Jötnar liði Bjarnarins í mfl. karla kl. 16.30 og síðan mæta Ynjur liði Bjarnarins í mfl. kvenna, strax að loknum karlaleiknum, líklega um kl. 19.30.