Hörkuleikur í borginni

Mynd frá leik liðanna fyrr í vetur. Ljósm. Ási
Mynd frá leik liðanna fyrr í vetur. Ljósm. Ási

SA-stúlkur lögðu land undir fót í dag og léku gegn Reykjavík í skautahöllinni í Laugardal. Einhver vandkvæði voru á útsendingu á leiknum og byrjaði útsending ekki fyrr en annar leikhluti var byrjaður þannig að við sem heima sátum misstum af hluta leiksins. Þetta hefði átt að vera síðasti leikur deildarinnar en vegna veðurs var fyrri leiknum í tvíhöfða sem átti að vera um síðustu helgi frestað til næstu helgar, og seinni leikinn gáfu Reykjavíkurstúlkur. SA var því með 19 stig fyrir leikinn í kvöld en Reykjavík 5. 

Hilma opnaði markareikning SA rétt eftir miðja fyrstu lotu. Þær voru þá að spila í yfirtölu eftir brot frá Reykjavík. Ragnhildur Kjartansdóttir, sem nú komin heim og spilar aftur með SA-liðinu, átti stoðsendinguna. Stuttu seinna skoraði Teresa annað mark SA, stoðsendingu áttu Anna Sonja og Sarah. Reykjavík náði að minnka muninn stuttu síðar og staðan eftir fyrstu lotu var því 1:2. Leikurinn var í járnum meiri part annarrar lotu en þegar lotan var rúmlega hálfnuð skoraði Sarah glæsilegt mark með stoðsendingu frá Kolbrúnu og Teresu. Staðan 1:3 og þannig var hún eftir fyrsta leikhluta.

Eftir nokkuð þóf í upphafi þriðju lotu náðu Reykjavíkurstúlkur að minnka muninn í 2:3 eftir varnarmistök hjá SA. Um miðja lotuna nýttu SA stúlkur sér svo að vera tveimur fleiri og Berglind skoraði laglegt mark með stoðsendingu frá Jónínu. Fimmta markið skoraði svo Sarah, enn í yfirtölu. Stoðsendingu átti Kolbrún. 

Sarah átti mjög góðan leik í kvöld og Birta varði vel í markinu. Þær nýttu vel að spila einni eða jafnvel tveimur fleiri og skoruðu þrjú mörk í yfirtölu. Þær voru 6 mínútur í boxinu en Reykjavíkurliðið átti heldur grófari leik og eyddu 12 mínútum í skammarkróknum. Sami var ánægður með að liðið skyldi loksins spila leik eftir langt hlé. Þetta hefði verið gott start eftir pásuna og nú væri bara að halda áfram. Síðasti leikurinn í deildinni hefur verið settur á sunnudag eftir viku. 

Mörk (stoðsendingar): Sarah 2 (1), Hilma 1, Teresa 1 (1), Berglind 1, Ragga (1), Anna Sonja (1), Jónína (1)

Birta stóð í markinu og varði 20 skot.