Ice Cup: Skráningarfrestur til 15. apríl

Tími til að huga að skráningu liða á Ice Cup. Þrjú og hálft erlent lið þegar komin til leiks.

Ice Cup verður haldið í fimmta sinn dagana 1.-3. maí. Keppni hefst á fimmtudagsmorgni, heldur áfram allan föstudaginn (frá morgni) og lýkur á laugardegi. Mótsslit verða svo í lokahófi á laugardagskvöldinu. Þetta fyrirkomulag var valið nú þar sem fimmtudagurinn er frídagur. Væntanlega fá öll lið að lágmarki fjóra leiki en sennilega fimm – og toppliðin þá sex leiki. Vonandi náum við að minnsta kosti 16 þátttökuliðum en það er þó óvíst enn. Keppnisfyrirkomulagið verður auglýst nánar þegar fjöldi liða er ljós.

Skráningarfrestur er til 15. apríl. Þátttökugjald er 18.000 krónur á hert lið, fyrir keppnina og aðgang að lokahófinu fyrir fjóra. Heimamenn eru hvattir til að huga að sínum liðum og skrá til leiks sem fyrst. Þátttökutilkynningar sendist til Hallgríms formanns í netfangið hallgrimur@isl.is.

Nú þegar er ljóst að þrjú og hálft erlent lið munu koma til leiks, eitt frá Danmörku, eitt frá Bandaríkjunum, eitt blandað frá Bandaríkjunum og Kanada og svo hollensk hjón sem mæta til leiks og fá til liðs við sig heimamenn (óráðið enn hvaða heimamenn það verða).

Auglýsing á ensku hér...